Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir félagið Samherji fiskeldi ehf. (áður í eigu Íslandsbleikju ehf.) fyrir eldi klakfiska til framleiðslu á bleikjuhrognum í stöð sinni að Sigtúnum í Öxarfirði, Norðurþingi. Lífmassi í stöðinni skal aldrei fara yfir 11 tonn á hverjum tíma. Umfang framleiðslu hrogna í stöðinni verður um 330 lítrar á ári. 

Meðfylgjandi má sjá tillögu að starfsleyfi ásamt umsókn rekstraraðila. 

Um er að ræða landeldi bleikju klakfiska sem nýttir eru til að hrygna og eru hrognin síðan flutt í seiðaeldi í annarri stöð. Klakfiskarnir eru aldir í stöðinni úr 60 grömmum í 6 kg og eru 2/3 í stöðinni (um 8 tonn) í fóðrun á hverjum tíma. 

Umhverfisstofnun telur að mengun verði óveruleg m.t.t. lítils umfangs stöðvarinnar en frárennsli er losað í viðtakann Landsá sem síðar sameinast Jökulsá á Fjöllum og þaðan í Öxarfjörð.  

Skipulagsstofnun ákvarðaði, þann 20. febrúar 2018, að starfsemin væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sjá má ákvörðun um matsskyldu í fylgiskjölum auglýsingar. 
 
Hægt er að gera athugasemdir við tillöguna á tímabilinu 20 maí til 18. júní 2020. Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til lok dags 18. júní nk. 
 
Tengd skjöl: 
Tillaga að starfsleyfi 
Umsókn um starfsleyfi 
Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu