Stök frétt


Í vikunni verður hafist handa við að flytja malarefni í yfirborð á nýjum göngustíg á Skógaheiði með þyrlu. Unnin hefur verið grófvinna og landmótum síðustu mánuði og styttist í verklok, en um er að ræða annan áfanga af þremur í uppbyggingu Umhverfisstofnunar á göngustígum á heiðinni. Að verki loknu verður hægt að virða fyrir sér fagra fossaröð Skógaár á öruggan og sjálfbæran máta. Hingað til hefur verið gengið meðfram ánni á gömlum kindaslóðum og var svæðið verulega farið að láta á sjá sökum ágangs. 

Til að koma malarefni í yfirborð hins nýja stígs þarf hinsvegar að flytja nokkur hundruð rúmmetra með þyrlu upp af láglendinu. Í ferðamannaleysinu hefur skapast tækifæri til að skipuleggja þyrluflutninginn á þann veg að notast verður við bílastæðið framan við fossinn sem vinnusvæði á meðan þyrluflutningum stendur. Áður stóð til að fljúga þyrlunni margfalt lengri vegalengd í hverri ferð til að komast hjá lokunum, enda hefur fossinn jafnan verið heimsóttur af þúsund gesta á degi hverjum á síðustu árum.

Umhverfisstofnun vill vekja athygli á því að af öryggisástæðum verður lokað fyrir aðgengi að bílastæðinu sem og að Skógafossi sjálfum á meðan þyrlan er að störfum. Reiknað er með að verkið hefjist á föstudagsmorgun og taki 4-5 daga. Stofnunin biðst jafnframt velvirðingar á þeim óþægindum og röskunum á ferðaáætlunum sem þetta gæti valdið.