Stök frétt

Mikill fjöldi ferðamanna hefur heimsótti Látrabjarg það sem af er sumri og samkvæmt talningum landvarða er áætlað að um 11.000 manns hafi komið á Látrabjarg í júlí. Þrátt fyrir að fyrri hluti mánaðar hafi verið blautur og kaldur hefur það ekki dregið úr áskókn í að skoða þessa náttúruperlu Vestfjarða. En sökum örbleytu hefur álag á svæðinu aukist til muna þar sem svæðið er ekki undir það búið að taka á móti svo miklum fjölda fólks. Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar í samvinnu við landverði hafa unnið gott starf í uppbyggingu á göngustígum á svæðinu, en betur má ef duga skal. 

Landeigendur á Látrum hafa ekki farið varhluta af bílaumferðinni sem liggur í gegnum sumarhúsabyggðina á Látrum. En samkvæmt talningum landvarða er áætlað að um 120 bílar að meðaltali á dag hafi ekið um veginn út á Látrabjarg. Vegurinn sem liggur á milli sumarhúsa á Látrum er hættulegur þeim sem eiga hús næst veginum. Þrátt fyrir að hámarkshraði þar sé 30 km. þá eru því miður ekki allir sem virða það og aka langt fyrir ofan hámarkshraða. Samkvæmt vegaáætlun er stefnt að því að færa veginn fyrir ofan sumarhúsabyggðina. Eins og vegurinn er í dag liggur hann of nálægt byggðinni á Látrum og því fylgir mikið ónæði, rykmengun og ekki síst slysahætta. 

Næstkomandi sumar munu sjálfboðaliðar og landverðir halda áfram vinnu við stígagerð á Látrabjargi. En nauðsynlegt er að hraða þeirri vinnu til að koma í veg fyrir frekari hnignun á gróðri á svæðinu. Landeigendur á Látrum vonast til að vegaframkvæmdir fyrir ofan sumarhúsabyggðina fari í gang sem fyrst því umferð hefur aukist mikið síðastliðin ár og mun líklegast halda áfram að aukast.