Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Menning og saga

Atvinnuhættir

Sauðfjárbúskapur hefur verið þýðingarmesti atvinnuvegurinn í Mývatnssveit öldum saman.
Hey fékkst úr eyjum og af vatnsbökkum og votlendi og flæðiengjar sunnan Mývatns (Framengjar) voru hvað þýðingarmestar, en tún voru lítil. Hey voru flutt heim á sleðum að vetrarlagi en víða má sjá leifar selja og beitarhúsa þar sem fé var haldið til beitar fjarri bæ sumar og vetur. Brennisteinn var numinn af hverasvæðum, t.d. í Námafjalli og Fremrinámum og fluttur út.
Hlunnindanýting á sér langa sögu. Silungsveiði hefur verið stunduð frá alda öðli, mikið á dorg á vetrum og lengi vel með fyrirdrætti og heimatilbúnum lagnetjum sumar og haust. Silungurinn er gjarnan ,,reyðaður" sem kallað er, þ.e. flattur og saltaður næturlangt en síðan reyktur við tað (saltreyð).
Nýorpin egg eru tínd úr hreiðrum algengustu fugla.
Kísilgúrverksmiðja var reist í Bjarnarflagi árið 1967 en þar eru kísilrík setlög úr botni Mývatns þurrkuð með jarðgufu. Verksmiðjunni var lokað í desember 2004. Kröfluvirkjun (1977) nýtir jarðhita við Kröflu til að framleiða raforku. Mývatnssveit er einn helsti ferðamannastaður landsins og er þar fjölbreytt ferðaþjónusta.
Hægt er að gista á hótelum og í bændagistingu eða tjalda á merktum tjaldsvæðum. Þar eru einnig veitingastaðir, matvöruverslun, minjagripaverslanir, sundlaug og Jarðböðin.

Fornminjar og þjóðfræði

Tvennar víðkunnar fornminjar tengjast Mývatnssveit. Frægt hneftafl úr kumli við Baldursheim er nú varðveitt á Þjóðminjasafninu. Á Hofsstöðum eru menjar 40 metra langs skála frá 10. öld.  Af fornköppum er Víga-Skúta nafntogaðastur. Hann átti öxina Flugu sem varð mörgum manni að bana. Af álfum og tröllum fer færri sögum en Skessan Kráka bjó í Bláhvammi utan í Bláfjalli og bjó hún til Kráká til að hefna sín á Mývetningum. Önnur skessa bjó í Skessuhala austan Mývatns en hana dagaði uppi í nökkva sínum á leið frá Mývatni og situr hún enn í Nökkvanum sem svo er nefndur sunnan undir Hverfjalli (Hverfelli). Af draugum er Grímsstaðaskotta nafnkenndust. Á nokkrum stöðum eru álagablettir og ýmsir höfðu trú á vatninu í Þangbrandspolli á Skútustöðum en þar skírði Þangbrandur biskup Mývetninga til kristinnar trúar.

Umhverfismál

Helstu umhverfismál Mývatnssveitar  varða orkuvinnslu ásamt eyðingu jarðvegs. Áform um stórvirkjanir í Laxá með tilheyrandi vatnaflutningum og uppistöðulónum leiddu til setningar laga um vernd svæðisins árið 1974, náttúrurannsóknastöð var komið á fót í kjölfarið. Gufuvirkjunin við Kröflu setur mikinn svip á umhverfið. Nokkurt gjallnám er í gíghólum á svæðinu, einkum Jarðbaðshólum. Mikil jarðvegseyðing hefur orðið austan Mývatns og var gróður og landslag í Dimmuborgum í hættu vegna sandfoks um tíma. Ástæður jarðvegseyðingarinnar eru ekki að fullu kunnar en orsakanna er líklega að leita í samspili beitar, loftslagsbreytinga og eldvirkni í Vatnajökli. Unnið er að uppgræðslu til að stöðva sandfokið.