Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Aðgengi og aðstaða

Dynjandi er í Arnarfirði við Vestfjarðaveg 60, um 30 km norðan friðlandsins í Vatnsfirði og um 9 km leið frá munna Dýrafjarðarganga. Frá þjóðveginum liggur Dynjandavegur 621, um 700 m leið að bílastæðinu. Frá Dynjanda er hægt að aka vestur Mosdalsveg út Dynjandisvog og endar hann við Laugaból. Næsta ferjuhöfn er við Brjánslæk og næsti flugvöllur á Ísafirði.

Við Dynjanda eru vatnssalerni sem opin eru allt árið. 

Bílastæði eru fyrir smærri bíla, húsbíla/sprintera og rútur, einnig eru sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Gjald er tekið fyrir bílastæðiÍ fjöru er snúningsstæði fyrir rútur. 

Á flötinni eru áningarborð og hleðsla með aðstöðu til eldunar. Göngustígur liggur frá bílastæði, meðfram Dynjandisá að fossinum Dynjanda og tekur gangan um 15 mínútur. Neðsti hluti stígsins er hellulagður og fær hreyfihömluðum að Hrísvaðsfossi, þar tekur við náttúrustígur sem er grýttur á köflum. Útsýnispallar eru við tvo fossa. Engin sorphirða er við Dynjanda og þar er óheimilt að hafa næturdvöl.

Á sumrin starfa landverðir innan náttúruvættisins. Hlutverk þeirra er að gæta þess að ákvæði laga um náttúruvernd, sérlaga, verndaráætlana og annarra stjórnvaldsfyrirmæla séu virt, koma á framfæri upplýsingum og fræðslu til ferðafólks um náttúru og sögu svæða auk þess að sjá um daglegan rekstur og viðhald.

Haustið 2020 voru Dýrafjarðargöng tekin í gagnið og þá varð sú breyting á að Dynjandi varð aðgengilegur gestum allan ársins hring en fram að þeim tíma hafði heiðum í nágrenni náttúruvættisins ekki verið haldið opnum alla jafna yfir vetrartímann. Með þeim samgöngubótum sem eru yfirstandandi í nágrenninu verður metið hvernig þjónustu verður háttað við náttúruvættið í framtíðinni út frá umferð um svæðið.