Bláfjallafólkvangur

Bláfjöll

Bláfjallafólkvangur var fyrst friðlýstur árið 1973, en friðlýsingin var endurskoðuð árið 1985. Að fólkvanginum koma sveitarfélögin Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes, Hafnarfjörður, Garðabær, Sandgerði, Grindavík, Sveitarfélagið Garður, Sveitarfélagið Vogar, Reykjanesbær og Mosfellsbær. Stærð svæðisins er 90,4 km2. 

Náttúrufar 

Bláfjallafólkvangur liggur í miðju virks gosbeltis sem liggur eftir Reykjanesskaganum endilöngum. Ber landslagið þess greinileg merki en þar er að finna eldstöðvar af ýmsum gerðum, nútímahraun, móbergsmyndanir og grágrýti sem rann á hlýskeiðum íslaldar. Víða í hraunum á svæðinu má finna op og hella. Er þar að finna dýpsta lóðrétta hraunhellinn á Íslandi, Þríhnúkagíg, sem er um 120 metra djúpur. Hæsti punktur Bláfjallafólkvangsins er í Bláfjöllunum, 685 metra yfir sjávarmáli. 

Gróður á svæðinu einkennist að mestu af mosavöxnum hraunum og grýttum mosagrónum holtum. Inn á mili er að finna graslendi og lyngmóa. Mosin er viðkvæmur fyrir raski og er hætt við að gróðurþekja láti á sjá þar sem ágangur er mikill. 

Stór hluti fólkvangsins er jafnframt hluti af vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. 

Innan fólkvangsins er náttúruvættið Eldborg í Bláfjöllum. 

Fyrir gestinn – Ferðast um svæðið – Gagnlegar upplýsingar – Hvað er áhugavert? 

Bláfjallafólkvangur er í næsta nágrenni við stærstu sveitarfélög landsins og er aðgengi að svæðinu nokkuð gott. Innan fólkvangsins er rekið skíðasvæði í Bláfjöllum með skíðalyftum og troðnum gönguskíðabrautum. 

Akandi 

Hægt er að koma akandi inn í fólkvangin úr tveimur áttum.  

  • Aðkoma að svæðinu úr norðri frá höfuðborgarsvæðinu er eftir þjóðvegi 1. Beygt er við Bláfjallaveg veg nr. 417 við Sandskeið. Eknir eru 2,8 km áður en komið er að fólkvangsmörkunum. Ekið er á bundnu slitlagi alla leið. Frá gatnamótum þjóðvegar nr. 1 og vegi nr. 417 að skíðasvæðinu í Bláfjöllum eru um það bil 12 km á bundnu slitlagi. 
  • Aðkoma að svæðinu úr vestri frá höfuðborgarsvæðinu er eftir Reykjanesbraut veg nr. 41 og beygt inn á Krísuvíkurveg veg nr. 42 við Vallarhverfið í Hafnafirði. Frá gatnamótunum er um um 5,7 km keyrsla að gatnamótum við veg nr. 417 þar sem er beygt. Eftir það eru eknir 10,8 km að fólkvangsmörkunum. Frá fólkvangsmörkum eru um það bil 11 km að skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Ekið er á bundnu slitlagi hluta leiðar. 

Innan fólkvangsins er vegur nr. 407 (frá tengingu við veg 417 að skíðasvæði) með bundnu slitlagi og vegur nr. 417 með bundnu slitlagi að hluta til. Aðrir vegir eru ekki innan fólkvangsins. 

Athugið að ekki eru allir vegir þjónustaðir yfir vetrartímann. Upplýsingar um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og færð á vegum má nálgast á heimasíðu Vegagerðarinnar 

Almenningssamgöngur 

Yfir vetrartímann gengur rúta frá Reykjavík að skíðasvæðinu eftir opnunartíma þess. Upplýsingar um rútuáætlunina og verðskrá má finna á heimasíðu skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.  

Gönguleiðir 

Gönguleiðir innan svæðisins eru almennt ekki stikaðar. Stikuð leið er að Þríhnúkagígum og innan náttúrvættisins Eldborg í BláfjöllumJafnframt liggur Reykjavegur að hluta innan svæðisins, nánar tiltekið leiðin á milli Bláfjalla og HamragilsNálgast má upplýsingar um gönguleiðir á svæðinu m.a. á heimasíðunni ganga.is. Svæðið er að mestu hraun og í því er að finna op og hella. Er því vissara að fara varlega á ferð um svæðið og halda sig innan merktra gönguleiða þar sem því er við komið. 

Þjónusta á svæðinu 

Á svæðinu er skipulagt skíðasvæði með lyftum auk troðina gönguskíðabrauta í mismunandi vegalengdum.   

Bílastæði eru við Eldborg í Bláfjöllum og skíðaskálana. Engin salernisaðstaða er á svæðinu fyrir utan skíðaskálana þegar opið er á skíðasvæðinu. 

Umgengnisreglur 

  • Fótgangandi er heimil för um allt svæðið. 
  • Allt jarðrask er bannað innan svæðisins nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til. 
  • Allur akstur utan vegar er óheimill.
  • Öll meðferð skotvopna er óheimil á svæðinu utan veiða á ref og mink. 
  • Lausaganga hunda bönnuð. 

Stjórnsýsla – rekstur/stjórnun 

Bláfjallafólkvangur var friðlýstur árið 1973, en friðlýsingin var endurskoðuð með auglýsingu nr. 173 í Stjórnartíðindum B. árið 1985. 

Umsjón með fólkvanginum er í höndum samvinnunefndar sem skipuð er fulltrúum Reykjavíkur, Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Sandgerðis, Grindavíkur, Sveitarfélagsins Garðs, Sveitarfélagsins Voga, Reykjanesbæjar og Mosfellsbæjar.  

Kort