Menning og saga

Menning

Ingólfshöfði ber nafn landnámsmannsins Ingólfs Arnarsonar, sem sigldi ásamt konu sinni Hallveigu frá Noregi til Íslands og lenti skipi sínu við höfðann og hafði þar vetursetu.

Þjóðsagan segir að þau hafi búið við Höfðanef, austast og nyrst á höfðanum. Þá segir að norðan við höfðann hafi verið fjörður og þar hafi Ingólfur siglt inn og bundið skip sitt við Selaklett. Þetta telja menn að hafi verið árið 874.

Þorsteinn Jóhannsson í Svínafelli (1918-1998), orti ártalavísur til að hjálpa nemendum sínum að muna atburði úr Íslandssögunni. Fyrsta vísan minnir á landnám Ingólfs:

“Átta hundruð og sjötíu og auk þess talin fjögur
 Ingólfur hér festi byggð þá hófust landnámssögur.”

Til minningar um búsetu Ingólfs var árið 1974 reistur stuðlabergsdrangur á höfðanum og á honum stendur:

“Ingólfur tók þar land, er nú heitir Ingólfshöfði. Landnámabók. Ellefu alda minning 1974.”

Ingólfur settist síðar að í Reykjavík, en þar fundust öndvegissúlur þær, sem hann kastaði útbyrðis í þeim tilgangi að vísa sér á stað að búa á.

Skammt frá minnismerkinu um Ingólf Arnarson er varða sem Björn Gunnlaugsson lét hlaða 1839 er hann var við landmælingar í Ingólfshöfða. Örnefnin Skiphellir og Árabólstorfa í berginu norðanverðu benda til þess að útræði hafi verið frá Ingólfshöfða. Í berginu hjá Árabólstorfu er skúti, sem nefnist Púki. Munnmæli herma, að í þessum skúta hafi verið geymd veiðarfæri, þegar útræði var við höfðann.

Talið er að hlaup í Skeiðará 1774 hafi eyðilagt bátalendingu austan undir Ingólfshöfða, svo að útræði hafi lagst þar af. Í byrjun árs 1903 strandaði þýskur togari, Friederich Albert, á Svínafellsfjöru. 11 dögum eftir að togarinn strandaði var Sigurður Jónsson bóndi á Orustustöðum í Vestur-Skaftafellssýslu að gá að fé sínu.

Verður hann þá var við hreyfingu á sandinum sem hann vissi ekki hvað var og reið nær. Sá hann þá að þetta var maður skríðandi á fjórum fótum, aðframkominn, fötin frosin utan á honum og skórnir gjörsamlega gengnir upp. Sigurður kom manninum þegar til bæja og safnaði saman mönnum til leitar að hinum skipbrotsmönnunum sem honum skildist að væru á sandinum. Fundust átta menn á lífi, flestir illa kalnir á höndum og fótum. Héraðslæknirinn Bjarni Jensson á Breiðabólstað á Síðu og Þorgrímur Þórðarson læknir í Borgum í Nesjum komu strandmönnum til hjálpar, ásamt fleirum, því aflima þurfti suma þeirra vegna kals.

Hörmungar þessara skipbrotsmanna og þjáningar urðu til þess að menn vildu reyna að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig. Því var ráðist í það 1904 að reisa skipbrotsmannaskýli á Skeiðarársandi, það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og 1912 í Ingólfshöfða og er það fyrst og fremst D. Thomsen kaupmanni og konsúl Þjóðverja að þakka.

1917 réðust menn í að gera lendingarbætur á Ingólfshöfða við Eiríksnef. Skarð var sprengt í bergið, dráttarspil fest niður (sést enn), með vírstreng, sem lá niður bergið. Á þann hátt átti að skipa upp vörum frá flutningaskipum sem var ætlað að leggjast að fram undan Eiríksnefi. Þessar lendingarbætur komu ekki að notum, því þær eyðilögðust í hafróti veturinn eftir.

Fyrsti vitinn í Ingólfshöfða var reistur árið 1916. Hann var úr vinkiljárnum og var orðinn mjög veðraður þegar ráðist var í að steypa upp nýjan vita árið 1948 eftir hönnun Axels Sveinssonar verkfræðings.
 Flugviti var reistur 1974 og þá var einnig sett rafljós og radíóviti í hinn vitann. Flugvitinn er fjölstefnuviti í eigu Flugmálastjórnar og stýrir aðflugi til landsins sem og innanlandsflugi til Hornafjarðar.

“Ríkisrafmagn” kom í Öræfin 1974, en fram að þeim tíma fengu menn rafmagn úr heimarafstöðum, sem voru reistar í sveitinni uppúr 1922.