Álftaversgígar

By diego_cue, CC BY-SA 3.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=53735156

Álftaver afmarkast af Kúðafljóti að austan og Blautukvísl að vestan. Sveitin dregur nafn sitt af gróðurmiklu votlendi sem einkennir svæðið. Heitið Álftaver bendir jafnframt til þess að svæðið hafi verið mikið sótt af álftum. Álftir leitast eftir tjörnum og votlendi á sumrin og verpur á bökkum, í hólmum eða mýrum.
Álftaversgígar eru friðlýst náttúruvætti sem mynduðust í Eldgjárgosinu 934. Eldsumbrotin í Eldgjárgosinu voru gífurleg og hraun vall upp og flæddi fram úr 75km langri gossprungu sem opnaðist á milli Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls. Talið er líklegt að gosið hafi staðið yfir í 3 til 8 ár og því fylgdi mikið hraunflæði, gjóska og stórt jökulhlaup. Eldgjárhraunið flæddi um 70km leið niður í átt til sjávar í nokkrum hrauntaumum. Stærstu taumarnir eru nefndir Álftavershraun, Meðallandshraun og Landbrotshraun.

Myndun gervigíga

Vestan við byggðina í Álftaveri eru miklar þyrpingar gervigíga sem hafa verndað byggðina að miklu leyti fyrir jökulhlaupum frá Kötlu. Sýnt hefur verið fram á að Álftaversgígar mynduðust í Eldgjárgosinu 934 til 940 þegar hraun rann yfir votlendi. Gervigígar myndast þegar glóandi hraunkvika kemst í beint samband við vatnsósa undirlag og veldur hvellsuðu á vatninu. Hraunkvika rennur eftir hraunpípum en þar sem hraunkvikan brýst fram úr hraunpípunum myndast hraunsepar. Hraunsepar þessir belgjast út vegna kvikuflæðis inn í þá en smám saman afmarkast rennslið við fastmótaðar hraunpípur inni í hálfstorknuðu hrauninu. Þegar hraunseparnir belgjast út eykst þyngd þeirra og sekkur hraunið þá í undirlagið uns botnskorpan brestur undir hraunrásinni. Við það fer kvika að renna beint í vatnsósa undirlagið og veldur gufusprengingum þar sem gervigígar myndast á yfirborðinu. Sprengivirknin kemur í veg fyrir frekara hraunrennsli eftir hraunrásinni neðan við gufusprengingarnar og leiðir það til þess að hraunrennslið færist til og nýjar hraunrásir og ný gervigígagos verða til. Þannig gengur þetta koll af kolli þangað til að hraunið hefur unnið sig yfir votlendið og byggt upp þyrpingu af gervigígum.

Heimildir:

Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson, & Bjarni Bessason. (2013). Náttúruvá á Íslandi : Eldgos og jarðskjálftar. 

Guðrún Larsen (2000). Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Iceland: Characteristics and environmental impact. Jökull 49, 1-28.

Stærð náttúruvættisins er 3436,1 ha.

No image selected