Lambeyrarkvísl og Oddauppsprettur í Borgarfirði

Ljósmynd: Ólafur Páll Jónsson

Ljósmynd: Ólafur Páll Jónsson

Kynningarfundur

Kynningarfundur um tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár fyrir landeigendur Lambeyrarkvíslar og Oddauppspretta fór fram þann 23. janúar 2024. Fundurinn var stafrænn.

Horfa á upptöku frá fundinum

Skoða glærur frá fundinum

Um svæðið

Sveitarfélag: Borgarbyggð

Möguleg stærð: Lambeyrarkvíslar 0.07 km2 og Oddauppsprettur 0.06 km2

Innan Oddauppspretta eru margar uppsprettur sem renna í nærliggjandi ár og eru birkivaxnir hólmar við Hvítá og Kiðá með fjölbreytt fuglalíf. Um svæðið við Oddauppsprettur liggur gönguleið og rétt austan við er orlofsbyggð. Í Oddauppsprettum er að finna dvergbleikju og grunnvatnsmarflær. Áin sem rennur frá uppsprettunum er nokkuð stór og rennur í Hvítá.

Lambeyrarkvísl er stærsta lindarsvæðið á þessum slóðum og finnast þar bæði dvergbleikjur og grunnvatnsmarflær. Bleikja gengur upp í ána til hrygningar. Í ánni eru tvö bleikjuafbrigði. Annars vegar er staðbundin dvergbleikja sem m.a. má finna í upptakalind árinnar þangað sem ekki er fiskgengt, og hins vegar er sjóbleikja úr Hvítá sem nýtir Lambeyrarkvísl sem hrygningarsvæði. Svæðið einkennist af birkiskógi, hrauni og náttúrufegurð.

Grunnvatnsmarflærnar á þessu svæði eru einlendar tegundir.

Staðreyndarsíður Náttúrufræðistofnunar Íslands um Lambeyrarkvísl og Oddauppsprettur

Tillaga að svæðum á framkvæmdaáætlun

Mögulegar verndarráðstafanir

1. Vegna líffræðilegs fjölbreytileika og sérstöðu svæðisins er möguleg friðlýsing svæðisins sem náttúruvættis skv. 48. gr. náttúrverndarlaga eða friðlands skv. 49. gr. sömu laga.

Með friðlýsingu svæðisins sem náttúruvætti er verið að vernda lífræn fyrirbæri sem eru einstök og skera sig úr umhverfinu. Friðlýsingin skal jafnframt ná til svæðis kringum náttúrumyndanirnar svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín.Með friðlýsingu sem friðlands er áhersla á vernd lífríkis og tegund lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Í auglýsingum um friðlýsingu, sem eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda, er m.a. kveðið á um markmið friðlýsingar, umsjón, umferð og umgengni, tilhögun verndar, landnotkun og mannvirkjagerð ofl.

Friðlýsing er unnin í samstarfshópi sem skipaður er fulltrúum frá Umhverfisstofnun, sveitarfélagi, landeigenda og annarra eftir þörfum.

Ekki eru til nýlegar sambærilegar friðlýsingar en bent er á friðlýsingar Herðubreiðarfriðlands og friðlands í Hvannalindum til hliðsjónar.

2. Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna skv. 56. gr. náttúruverndarlaga.

Friðun vistgerða felur m.a. í sér sérstaka aðgæsluskyldu, forðast rask, framkvæmdaleyfisskyldu og mótvægisaðgerðir vegna mögulegs rasks. Í auglýsingu um friðun, sem er birt í B-deild Stjórnartíðinda, er kveðið á um umfang friðunar og þær takmarkanir sem af henni leiðir. Sambærileg friðun er til fyrir æðplöntur, mosa og fléttur frá árinu 2021.

Mögulegar takmarkanir/innviðir

Þar sem svæðið er mjög viðkvæmt gæti þurft að setja hóflega stýringu um svæðið s.s. með fræðsluskilti og styrkingu göngustíga til að fyrirbyggja traðk. 

Tilnefnt af Náttúrufræðistofnun Íslands vegna:

  • Kaldra linda

Kaldar lindir

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi

Verndargildi vistgerðar: Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Kaldar lindir koma fram þar sem grunnvatn streymir út á yfirborðið um uppsprettur á landi, t.d. undan hraunjaðri, eða á vatnsbotni. Lindum er gjarnan skipt í tjarnarlindir þar sem vatnið hefur viðstöðu í tjörn eða stöðuvatni og straumvatnslindir þar sem vatn streymir fram og myndar læk. Helstu einkenni linda eru jafnt rennsli og stöðugur vatnshiti árið um kring. Umhverfisaðstæður í lindum breytast mjög hratt þegar fjær dregur uppsprettunni og mörkin á milli uppsprettu og afrennslis hennar eru oft ekki skýr. Iðustreymi er ríkjandi.

Tvær tegundir einlendra grunnvatnsmarflóa, Crymostygius thingvallensis og Crangonyx islandicus, eru bundnar við grunnvatn og hafa eingöngu fundist í tengslum við lindir.

Rannsóknir á dvergbleikju í lindum hér á landi hafa leitt í ljós mikinn fjölda erfðafræðilega afmarkaðra stofna.

Vatnagróðurinn er lítt þekktur á landsvísu en mosar eru útbreiddir og þörungar og þörungaslý. Botninn er grýttur og sendinn og of lítt veðrað hraungrýti. Einnig kemur mjúkt vatnaset fyrir.

Að staðaldri er ekkert fuglalíf.

Upplýsingar um kaldar lindir á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands