Inniloft, raki og mygla

Inniloft

Umhverfisstofnun Evrópu gefur árlega út skýrslu um mál sem hæst ber á í umhverfismálum og fyrir almenning hverju sinni. Árið 2013 var áhersla lögð á loftgæði í Evrópu, m.a. inniloft. Hér fyrir neðan er mynd af helstu áhrifaþáttum innilofts á heimilum sem birt var í skýrslunni.

Bæklingur Umhverfisstofnunar um inniloft, raka og myglu.

Umhverfisstofnun hefur gefið út bækling/leiðbeiningarir um inniloft, raka og myglu, hvernig best sé að viðhalda og bæta heilnæmi innilofts og hvernig bregðast skuli við verði inniloftið óheilnæmt. Einnig er fjallað um eftirlit með húsnæði og ábyrgð eigenda og leigjenda húsnæðis. Hægt er að nálgast bæklinginn/leiðbeiningaritið hér.

Í Evrópu er áætlað að of mikill raki sé í 10-50% (mismikið eftir löndum) af því húsnæði sem fólk býr, vinnur og leikur sér í. Of mikill raki veldur þungu lofti og saggalykt. Loft kólnar við raka veggi en það kallar á meiri upphitun með hærri hitakostnaði. Of mikill raki í húsnæði getur haft slæm áhrif á heilsu fólks og þau sem búa í slíku húsnæði eru í meiri hættu en aðrir að fá sjúkdómseinkenni og sýkingar í öndunarvegi, ofnæmiskvef og astma. Fólk er misviðkvæmt fyrir myglu og sumir hópar eru sérlega viðkvæmir. Sérstaklega þarf að halda raka og myglu frá börnum, eldra fólki, fólki með astma, exem og ofnæmi eða bælt ónæmiskerfi. Rannsóknir sýna að þeir sem búa í vel einangruðum húsum og vel loftræstum leita síður til læknis og leggjast síður inn á sjúkrahús vegna kvilla í öndunarfærum en þeir sem búa í röku húsnæði.

Oftast er einfalt að viðhalda heilnæmu innilofti í híbýlum, t.d. með því að lofta vel út og þrífa híbýli vel. Margt getur þó haft áhrif og mikilvægt er að huga að því hvernig hægt sé að viðhalda heilnæmu innilofti eða bæta það. Þannig má minnka líkur á að inniloft geti haft slæm áhrif á heilsu þeirra sem þar dvelja.

Leiðbeiningar um loftgæði innandyra

Líffræðilegir þættir sem tengjast innilofti, geta haft áhrif á heilsu fólks og eru fjölbreytilegir, allt frá frjókornum og gróum plantna til baktería, myglu, þörunga og nokkurra frumdýra sem er að finna bæði úti og inni. Það eru sterkar vísbendingar um hættu sem stafar af nokkrum líffræðilegum þáttum sem menga inniloft. Þrátt fyrir það var niðurstaða alþjóðaheilbrigðis-málastofnunarinnar (WHO) sú að ekki væri hægt að greina hvaða tegundir örvera eða annarra líffræðilegra þátta hafi áhrif á heilsu fólks. Þetta stafar af því að oft verður fólk fyrir áreiti frá svo mörgum þáttum samtímis og vegna þess hvað flókið er að ákveða magn þeirra. Einnig vegna mismunandi heilsufarseinkenna sem geta komið fram.

Því var ekki hægt að setja fram leiðbeiningar eða viðmið um magn tiltekinna lífræðilegra þátta, en í stað þess voru samdar leiðbeiningar í þeim tilgangi að vernda heilsu og ákvarða áhættuþætti með því að skilgreina vísa, eins og t.d. raka, um loftgæði innandyra. Þannig skilgreina leiðbeiningarnar vandamál og kringumstæður sem geta valdið áhættu, en innihalda ekki viðmið um ásættanlegt magn líffræðilegra þátta. Tilgangur leiðbeininganna er að hjálpa heilbrigðisyfirvöldum og almenningi að greina áhættu og draga úr henni. Fyrst og fremst er litið til þess að greina vandann, til dæmis hvort raki sé í húsnæði og þá ákveða um viðgerð á skemmdum og hvernig megi loka fyrir leka.

Leiðbeiningar WHO um loftgæði innandyra

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf út árið 2009 leiðbeiningar um loftgæði innandyra, sem snúa fyrst og fremst að raka og myglu.

Leiðbeiningar WHO eru afrakstur tveggja ára ítarlegrar yfirferðar vinnuhóps 36 sérfræðinga á heimsvísu á opinberum rannsóknaniðurstöðum, sem fyrir liggja á þessu sviði. Niðurstaða sérfræðinganna er sú að þeir sem starfi eða búi í raka- og/eða mygluskemmdu húsnæði séu í meiri hættu á því að fá einkenni öndunarerfiðleika og astma. Í leiðbeiningunum eru lagðar til fyrirbyggjandi aðgerðir eða viðgerðir á raka- og mygluskemmdum til þess að draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna.

Mörg lönd innan ESB eiga í vandræðum með raka í húsnæði. Talið er að  20-30% heimila eru með raka- og mygluskemmdir. Eins og kemur fram að ofar benda traustar vísbendingar til þess að raki í byggingum stofni heilsu fólks í hættu. Við slíkar aðstæður vaxa hundruð tegunda baktería og sveppa innandyra og gefa frá sér gró, frumubrot og efni út í loftið. Innöndun eða snerting við þessi aðskotaefni hefur verið tengd við nýgengi eða að einkenni öndunarfærasjúkdóma, ofnæmi, astmi og ónæmisviðbrögð ágerist. Börn eru sérlega viðkvæm fyrir slíkum áhrifum.

Skýrsla WHO um loftgæði innandyra

Vefsvæði WHO um loftgæði og heilsu

Leiðbeiningar

Ítarefni

Algengar spurningar