Hljóð

Hljóð er bylgjuhreyfing í lofti. Eðlisfræðilega er enginn munur á hávaða og hljóði, en frá sálrænu sjónarhorni er hljóð upplifun. Hávaði er skilgreindur sem óæskilegt eða skaðlegt hljóð.

Hávaði er talinn eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Þó hávaði sé ekki lífshættulegur getur hann haft mikil áhrif á heilsu okkar og lífsgæði. Áhrif hans fara eftir því af hvaða toga hávaðinn er, tíðnisvið hans og styrkleika, hvernig hann breytist með tímanum og á hvaða tíma sólarhringsins við heyrum hann.

Mælieining fyrir hljóð er desiBel (dB) sem er lógaritmískur skali, þannig að 3ja dB hækkun á hljóðstigi jafngildir tvöföldun á styrkleika þess. Til þess að taka tillit til breytilegrar næmni mannseyrans fyrir mismunandi tíðni hljóðs, er við mælingar beitt ákveðinni síu og er þá talað um dB(A). Venjulegt samtal getur verið um 60 dB. Fari hávaði yfir ákveðin mörk getur hann farið að valda heyrnarskemmdum. Hættumörk eru talin vera við 80-85 dB jafngildishljóðstig eða við styttri hljóðtoppa 120-130 dB.

Hættan eykst með auknum hljóðstyrk og lengd þess tíma sem dvalið er í hávaða.