Sjálfbært

Sjálfbær framleiðsla á hráefni

Sum merki segja til um hvort framleiðsla á tilteknu hráefni teljist sjálfbær. Slík merki má finna á til dæmis ýmsum afurðum úr timbri, svo sem garðhúsgögnun, prentpappír eða timburkolum og á frosnum fiskiafurðum.

 

FSC um sjálfbæra skógrækt

Í FSC merktri skógrækt eru ekki felld fleiri tré en skógurinn nær að endurnýja. Jafnframt tryggir FSC vottun að dýra- og plöntulíf  er verndað og að starfsmenn skógræktarinnar fá nauðsynlegan öryggisútbúnað og sæmileg laun.
Merkið felur ekki í sér lífræna vottun.
FSC merkið var stofnað fyrir tilstilli alþjóðlegs samstarfs á milli umhverfissamtaka, mannréttindasamtaka, skógræktar og timburiðnaðar. Tilgangur merkisins er að fá framleiðendur til að taka meiri ábyrgð á umhverfislegum-, félagslegum- og hagrænum þáttum í skógrækt. FSC er viðurkennt af samtökum svo sem WWF (wwf.org) og Greenpeace (greenpeace.org).
Lestu meira um FSC á heimasíðu merkisins


PEFC

PEFC er stytting á Programme for the Endorsement of Forest Certification schemes.
Þetta merki tryggir að timbrið kemur frá sjálfbærri skógrækt, þar sem er bæði tekið tillit til umhverfismála, líffræðilegs fjölbreytileika og félags- og efnahagslegra aðstæðna verkamannanna.
Kröfur vottunarkerfisins varða aðeins sjálfbæra nýtingu skóga og timburs eða viðartrefja frá skóginum til neytenda. Skógræktarstaðall PEFC leitast við að ná yfir allar gerðir og stærðir skóga
Lestu meira um PEFC á heimasíðu merkisins

 

MSC (Marine Stewardship Council)

Merkið gefur til kynna að ekki sé um að ræða fiskitegund sem er í útrýmingarhættu og að framleiðsluaðferðir sem notaðar eru verndi líffræðilegan fjölbreytileika hafsins.
MSC merkið er eina merkið fyrir villtan fisk sem stenst staðla Sameinuðu þjóðanna um staðla fyrir umhverfismerkingar. Merkið felur ekki í sér lífræna vottun.

MCS byggir á þremur meginreglum:
1.    Veiðarnar skulu framkvæmdar á þann hátt að þær leiða ekki til ofveiða.
2.    Veiðarnar skulu framkvæmdar á þann hátt að þær varðveiti vistkerfi hafsins, virkni þess, uppbyggingu og fjölbreytileika.
3.    Veiðarnar skulu byggðar á skilvirku stjórnkerfi sem fylgir jafnt alþjóðlegum- sem og landslögum. Veiðarnar skulu þar að auki byggðar á kerfi sem tryggir örugga langtíma nýtingu.  

Lestu meira um MSC á heimasíðu merkisins