Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Áhrif á Íslandi

Tilskipun 2003/87/EB og tengdar gerðir voru teknar upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007 í október 2007. Vegna þess hve lítil starfsemi hér á landi féll undir gildissvið tilskipunarinnar á tímabilinu 2008-2012 var samið um undanþágu fyrir Ísland við afgreiðslu málsins í sameiginlegu EES-nefndinni, en undanþágan fól í sér að lögaðilum hér á landi sem heyrðu undir gildissvið tilskipunarinnar á tímabilinu 2008 til 2012 var ekki skylt að afla losunarheimilda. Gildissvið tilskipunar 2003/87/EB var rýmkað umtalsvert með tilskipun 2009/29/EB. Breytingin er þýðingarmikil fyrir Ísland því að hún felur m.a. í sér að losun koldíoxíðs og flúorkolefna (PFC) frá álframleiðslu og losun koldíoxíðs frá járnblendi heyrði undir kerfið og var háð losunarheimildum frá 1. janúar 2013. Frá þeim tíma rann út undanþága Íslands, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Frá 1. janúar 2013 féllu íslensk fyrirtæki því undir viðskiptakerfið. Tilskipun 2003/87/EB og tengdar gerðir voru innleiddar í íslensk lög með lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál, síðar lögum nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.  

Gerð er krafa um að rekstraraðilar sem stunda staðbundna starfsemi sem fellur undir gildissvið laganna hafi losunarleyfi. Sótt er um losunarleyfi til Umhverfisstofnunar í samræmi við lög nr. 96/2023.  

Umhverfisstofnun hefur veitt þrettán starfandi fyrirtækjum losunarleyfi. Þau eru: Alcan á Íslandi, Alcoa Fjarðaál, Elkem Ísland, HB Grandi Akranesi, Ísfélag Vestmannaeyja í Vestmannaeyjum, Ísfélag Vestmannaeyja Þórshöfn, Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði, Norðurál Grundartanga, Steinull hf, PCC, Stakksberg ehf og Verne Global.  

Af þessum 13 eru sex starfandi fyrirtæki sem falla að fullu undir viðskiptakerfið hérlendis. Þau eru: Rio Tinto á Íslandi, Alcoa Fjarðaál, Elkem Ísland, Norðurál Grundartanga, PCC og Verne Global.  

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 96/2023 er Umhverfisstofnun heimilt að undanskilja starfsstöðvar gildissviði viðskiptakerfisins, uppfylli þau tiltekin skilyrði. Á fyrri hluta fjórða viðskiptatímabilsins (2021-2025) voru fjórar starfsstöðvar undanskildar gildissviði kerfisins, Ísfélag Vestmannaeyja í Vestmannaeyjum, Steinull hf., Brim Akranesi og Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði. Á síðari hluta fjórða viðskiptatímabilsins (2026-2030) verða þrjú fyrirtæki undanskilin gildissviði kerfisins, Steinull hf., Brim Akranesi og Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði. Fyrirtæki sem eru undanskilin gildissviði kerfisins þurfa að ná sambærilegum árangri við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og þau fyrirtæki sem heyra undir kerfið og greiða losunargjald í ríkissjóð, sbr. lög nr. 96/2023.