Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Höfundur myndar: Sigurður Ingason

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að endurnýjuðu starfsleyfi fyrir fiskimjölsverksmiðju Skinneyjar-Þinganess hf. þar sem heimilað verði að framleiða fiskimjöl og lýsi úr fiski og fiskúrgangi í verksmiðjunni, auk framleiðslu á meltu frá hraðfrystihúsi rekstraraðila. Hámarksafköst verksmiðjunnar eiga samkvæmt tillögunni að miðast við að framleitt verði úr 900 tonnum af hráefni á sólarhring.

Umhverfisstofnun mun halda kynningarfund í Nýheimum, Litlubrú 2 í Hornafirði þann 16. mars kl. 17:30. þar sem tillagan verður kynnt og að því loknu gefst fundargestum kostur á að koma með athugasemdir og bera upp spurningar.

Tillaga að starfsleyfi

Rekstur fiskimjölsverksmiðjunnar á sér langa sögu en hún var áður rekin undir merkjum Óslands ehf. en er nú hluti af Skinney-Þinganesi hf. sem er alhliða útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki á Hornafirði. Samkvæmt reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, er fiskimjölsverksmiðjan starfsleyfisskyld hvað mengunarmál varðar.

Síðustu ár hafa átt sér stað endurbætur á verksmiðjunni og allri aðstöðu. Nýr löndunarbúnaður er kominn í nýju húsi, gömlu verksmiðjunni hefur verið breytt í mjölhús og skipt um gufuþurrkara, auk fleiri lagfæringa á búnaði og húsnæði verksmiðjunnar.

Eitt staðbundið vandamál sem tekið er á í tillögunni er plássleysi á athafnasvæði verksmiðjunnar en það veldur því ekki er hægt að koma við kröfu um þróarrými fyrir 90% af rýmd lýsisgeyma sem Umhverfisstofnun gerir að jafnaði kröfu um og er ætlað að lágmarka afleiðingum mögulegrar bráðamengunar vegna óhappa. Í tillögunni er því gert ráð fyrir að mörkin fyrir þróarrými verði 60% af rýmd lýsisgeyma en til mótvægis við minni kröfur um rýmd koma kröfur um að tiltæk sé flotgirðing sem nota megi til að loka víkinni við löndunaraðstöðuna ef óhöpp verða. Ákvæði er að auki um skyldu fyrirtækisins til að æfa notkun flotgirðingarinnar og á fyrsta æfingin að fara fram fyrir árslok 2010.

Við samningu tillögunnar hefur Umhverfisstofnun lagt áherslu á skýr ákvæði um ferskleika hráefnis sem tekið er til vinnslu í verksmiðjunni enda er ferskleiki hráefnis besta vörnin gegn lyktarmengun. Einnig eru ítarleg ákvæði um hreinsum útblásturslofts frá tækjum og vinnsluferlum sem geta valdið ólykt og að haldið verði undirþrýstingi í vinnsluhúsnæði til að hindra dreifingu ólyktar. Ákvæði eru um að hæð skorsteins og útblásturshraði sé nægilegur til að ekki verði líkur á niðurdrætti á útblásturlofti. Loks er krafa um að framkvæmdaraðila beri að huga að veðurfari ef ráðstafanir til að halda ferskleika duga ekki til og nauðsynlega þarf að vinna hráefni með of hátt TVN-gildi. Þess má geta að slík TVN-gildi eru mælikvarði á reikula basa sem valda lyktarmengun af hráefni sem hefur misst ferskleika.

Ýmis ákvæði eru varðandi kröfur til frárennslis og losunarmörk fyrir fitu, svifefni og súrefnisþörf. Þá ber að nýta soðvatn. Sérstök úttekt skal fara fram á heildarlosun mengandi efna frá verksmiðjunni og skal ljúka henni á árinu 2013.

Tillagan mun liggja frammi ásamt umsóknargögnum á skrifstofu Hornafjarðarbæjar, Hafnarbraut 27, á tímabilinu 12. febrúar til 9. apríl 2010. Tillöguna má einnig nálgast á vefsíðu Umhverfisstofnunar ásamt umsókn. Frestur til að skila skriflegum athugasemdum um tillöguna til Umhverfisstofnunar er til 9. apríl 2010.