Stök frétt

Í dag, 22. mars, er alþjóðlegur dagur vatnsins, en Sameinuðu þjóðirnar halda upp á dag vatnsins árlega.

Þema dagsins í ár er „Accelerate change“ sem má þýða „Stuðlum að straumhvörfum“ í ljósi þess að alþjóðasamfélagið á enn langt í land með að ná 6. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna sem er að tryggja hreint vatn og hreinlætisaðstöðu fyrir alla jarðarbúa fyrir árið 2030. Því markmiði verður ekki náð á núverandi hraða breytinga.

Skuldbinda sig til aðgerða í þágu vatns

Fyrsta vatnaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í nær 50 ár, 2023 Water Conference, hefst sömuleiðis í dag, en tilgangur hennar er að flýta aðgerðum á sviði vatnamála með því að ná saman helstu hagsmunaaðilum þvert á alla geira sem tengjast vatni á einn eða annan hátt til að tryggja samræmdar lausnir svo að heimsmarkmið 6 verði að veruleika fyrir árið 2030. 

Á ráðstefnunni verður m.a. kynnt skýrsla UNESCO/UN Water um þróun vatnsástands í heiminum, Partnerships and Cooperation for Water. Samkvæmt henni upplifa tveir til þrír milljarðar fólks skort á vatni. Ef ekkert verður að gert mun vatnsskortur verða enn stærra vandamál á næstu áratugum, sérstaklega í þéttbýli.

Meginmarkmið ráðstefnunnar er að samþykkja safn vatnstengdra skuldbindinga, svokallað „Water Action Agenda“ þar sem stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök, hagsmunaaðilar og ekki síst almenningur setji fram sínar skuldbindingar til að hraða þessari framþróun.

Aðgangur að hreinu vatni eykur lífsgæði, ekki síst kvenna

Í gegnum þróunaraðstoð hefur Ísland á síðustu árum unnið að því að tryggja aðgang hundruð þúsunda landsmanna að hreinu vatni í Malaví, Úganda og Sierra Leone, sem og að bæta aðgengi að hreinlætisaðstöðu. Þessar aðgerðir hafa bætt lífsgæði íbúa í þessum löndum til mikilla muna, ekki síst kvenna sem oftar en ekki sjá um að ná í hreint vatn til heimilishalds.

Nú ríkir ófremdarástand í Malaví eftir að hitabeltisstormurinn Freddy lagði stóran hluta innviða landsins í rúst og mun aðgangur að hreinu vatni skipta verulegu máli í endurreisn landsins.

Til að heimsbyggðin eigi möguleika á að tryggja hreint vatn og hreinlætisaðstöðu fyrir 2030 þurfa allir að leggja hönd á plóginn. Einkunnarorð dags vatnsins í ár „BE THE CHANGE YOU WANT TO SEE IN THE WORLD“ eða „Breytingar í heiminum byrja hjá þér“. Með hverju hænuskrefi færumst við nær markmiðinu.

Hvað getum við gert?

Flestir Íslendingar telja að það sé til nóg af hreinu vatni á Íslandi og að það þurfi hvorki að fara sparlega né varlega með vatn. Þetta er misskilningur því álag á vatn á Íslandi eykst ár frá ári. Með því að taka þátt og fræðast, miðla og framkvæma getur hvert og eitt okkar haft áhrif til að hraða breytingum og færast nær heimsmarkmiði 6.

Dæmi um það sem þú getur framkvæmt til að stuðla að bættum vatnshag:

  • Sparaðu vatn: Ekki láta vatnið renna of lengi í sturtunni, þegar þú tannburstar þig, undirbýrð mat eða þværð upp. 
  • Líttu nær þér: Kauptu frekar matvæli, föt og hluti sem nota minna vatn í framleiðsluferlinu. 
  • Sturtaðu ábyrgt niður: Ekki setja matarafganga og -olíur, lyf eða önnur spilliefni í klósettið eða niðurföll.
  • Haltu hreinu: Taktu þátt í að halda ám, vötnum og ströndum hreinum. Fargaðu úrgangi á ábyrgan hátt. 

Kynntu þér ástand vatns á Íslandi og í heiminum t.d. með því að glugga í eftirfarandi heimildir:

Miðlaðu upplýsingum um ástandið og búðu til lista yfir hvað þú ætlar að gera til að stuðla að bættu ástandi:

Þetta byrjar allt hjá þér – þú getur lagt málefninu lið!

Þjórsárver eru eitt af sex Ramsarsvæðum á Íslandi.

Nánari upplýsingar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á íslensku

Íslenska vatnafræðinefndin fer með alþjóðasamstarf á sviði vatnafræði innan vébanda UNESCO og er skipuð fulltrúum frá helstu stofnunum og hagaðilum sem tengjast vatni á einn eða annan hátt, þ.e., Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Íslenska vatnafræðifélaginu, Landsvirkjun, Orkustofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnun, og Veðurstofu Íslands.