Stök frétt

Mynd: Ólafur K. Nielsen

Þriðjudaginn 4. október sendi Umhverfisstofnun tillögur sínar að fyrirkomulagi rjúpnaveiða ársins 2022 til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. 

Við gerð tillagnanna lagði Umhverfisstofnun til grundvallar mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins fyrir árið 2022. Í mati Náttúrufræðistofnunar kemur m.a. fram að stofninn telji um 297.000 rjúpur og leggur stofnunin áherslu á að afli verði ekki umfram 6 fugla á mann eða 8,8% af veiðistofni (26.000 fuglar).

Tillögur voru lagðar fram að undangengnu samráðsferli við Náttúrufræðistofnun Íslands, Fuglavernd og Skotveiðifélag Íslands og byggja á þremur megin stefum; sölubanni, hvatningarátaki til veiðimanna og styttingu veiðidags sem skilaði árangri á síðasta tímabili.

Umhverfisstofnun leggur til að veiðar verði heimilar sem hér segir:

Nóvember: Frá og með 1. nóvember til og með 30. nóvember - frá og með föstudögum til og með þriðjudögum á því tímabili og að veiðar hefjist á hádegi (21 dagur).

Desember: Frá og með 2. desember til og með 4. desember - frá og með föstudögum til og með þriðjudögum á því tímabili og að veiðar hefjist á hádegi (3 dagar).

Tillögurnar má lesa í heild sinni hér.