Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur uppfært magntölur úrgangs á Íslandi fyrir árið 2020. Magntölur voru birtar upphaflega þann 4. apríl 2022. Síðar kom í ljós villa í skilaskýrslu umfangsmikils úrgangsmeðhöndlunaraðila. Við leiðréttingu kom í ljós að uppfæra þurfti heildarmagntölur ársins 2020. Niðurstaðan er að heildarmagnið eykst um 8.000 tonn en allur sá úrgangur fór í endurnýtingu en ekki í förgun. Nánar til tekið jókst magn plastumbúða í aðra endurnýtingu, pappírs og pappaúrgangs í endurvinnslu og matarúrgangs í jarðgerð. Allt eru þetta flokkar heimilisúrgangs og hækkar þar með endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs úr 25% í 26% fyrir árið 2020. Endurnýtingarhlutfall heimilisúrgangs hækkar einnig úr 48% í 50%.

Auk þess var gerð ein leiðrétting á meðhöndlunarleið notaðra olía, sem flokkast sem rekstrarúrgangur, þar sem hreinsun á úrgangsolíu sem er síðar nýtt sem eldsneyti er skilgreint sem önnur endurvinnsla en ekki brennsla með orkunýtingu.

Umhverfisstofnun minnir á mikilvægi þess að meðhöndlunaraðilar sem skylt er að skila úrgangsgögnum til stofnunarinnar skv. lögum gangi úr skugga um að þau gögn sem skilað er séu ávallt rétt og áreiðanleg.

Hér má lesa nánar um heildarmagn og  meðhöndlun úrgangs