Stök frétt

Í dag afhenti Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins á Íslandi, Sigtúni Þróunarfélagi Svansleyfi fyrir vottun bygginga í nýjum miðbæ Selfoss. Um er að ræða stærsta einstaka verkefnið sem hefur hlotið Svansvottun á Íslandi og tekur til 13 bygginga sem samtals eru 5.500 fermetrar.

Mikil áhersla hefur verið lögð á umhverfismál við uppbyggingu miðbæjarins. Samið var við Umhverfisstofnun 2019 um Svansvottunina á byggingum, samhliða er einnig að ljúka vottunarferli BREEAM Communities fyrir deiliskipulag miðbæjarsvæðisins.

Við afhendingu vottunarinnar á Selfossi í dag sagði Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins: „Svansvottun bygginga er í mikilli sókn og hefur eftirspurn og áhugi á þeim vaxið svo um munar undanfarin ár. Það skiptir virkilega miklu máli að verkefni af þessari stærðargráðu sæki um umhverfisvottun en það sýnir mikla samfélagslega ábyrgð og eiga aðstandendur verkefnisins hrós skilið.“

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri JÁVERK: „Þetta er fyrsta stórverkefnið sem við höfum farið með í gegnum allt vottunarferlið og við höfum byggt upp mikla þekkingu sem við munum nota áfram í okkar fyrirtæki. Við munum hefja á árinu 2022 byggingu á 430 Svansvottuðum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og Selfossi og ætlum okkur að sanna að það er hægt að byggja vandað og heilnæmt húsnæði á fullkomlega samkeppnishæfu verði þegar kunnáttan er fyrir hendi.”

Leó Árnason, stjórnarformaður Sigtúns Þróunarfélags: „Það hefur verið lærdómsríkt og ánægjulegt að eiga samstarf við Umhverfisstofnun og verktaka okkar, Jáverk, um þetta viðamikla verkefni. Við viljum hafa miðbæinn eins umnhverfisvænan og okkur er unnt og teljum alþjóðlega viðurkenndar vottanir mikilvæga leið til þess“.

Mikill umhverfislegur ávinningur

Svansvottunin tryggir að umhverfislegur ávinningur af verkefninu er umtalsverður. Má nefna að með notkun umhverfisvænni steypu spöruðust um 170 tonn af kolefnisígildum en það samsvarar ársnotkun um 50 fólksbíla.

Lögð var rík áhersla á flokkun úrgangs á framkvæmdartíma. Til að sporna við orkusóun var sett upp loftskiptikerfi með hitaendurvinnslu í öllum íbúðum.

Í verkefninu var einnig sérstök áhersla lögð á rakaforvarnir og verklag til að koma í veg fyrir rakaskemmdir og myglu. Í þessu tilliti voru til dæmis byggingarefni rakamæld og loftþéttleikapróf framkvæmd. Þessi atriði eru mikilvæg til að tryggja góða innivist í byggingunum.

Aukið framboð á vottuðum vörum

Í Svansvottun felst að allar bygginga- og efnavörur sem notaðar eru við framkvæmdirnar séu umhverfisvottaðar. Vörurnar þurfa að uppfylla strangar kröfur um innihald skaðlegra efna.

Að mati Umhverfisstofnunar kom skemmtilega á óvart hversu mikið úrval og þekking er á umhverfisvottuðum vörum. Birgjar sem selja bygginga- og efnavöru eru alla jafna mjög meðvitaðir um þær kröfur sem liggja að baki Svansvottun. Þeir hafa aukið bæði framboð á efnum og þekkingu sem auðveldar byggingaferlið um munar.

Fjölbreytt flóra þjónustu og íbúða

Nýi miðbæjarkjarninn á Selfossi hefur verið í framkvæmd snemma árs 2019. Unnið hefur verið að Svansvottun bygginganna frá upphafi. Í verkefninu er unnið með sögulegar fyrirmyndir eldri húsa og er þar fjölbreytt flóra verslana, veitingastaða og ýmissar þjónustu, auk íbúða og skrifstofuhúsnæðis.

Markmið Svansvottunar

Meginmarkmið vottunarinnar er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga, sporna við hnattrænni hlýnun og vernda heilsu þeirra sem koma að verkinu á framkvæmdartíma sem og þeirra sem nota bygginguna eftir að hún er tekin í notkun. Kröfurnar ná einnig til gæðastjórnunar á verkstað, en skýr stýring á umhverfisþáttum og gæðastjórnun helst oft í hendur.

Umsjónaraðili Svansins

Umhverfisstofnun er umsjónaraðili Svansvottunar á Íslandi, en Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem hefur það meginmarkmið að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfis- og heilsusamari kosti.

Nánari upplýsingar veita:
Gylfi Gíslason, Jáverk í síma 860-1707
Guðrún Lilja Kristinsdóttir, Umhverfisstofnun í síma 822-4059