Stök frétt

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, veitti í dag Krónunni svansvottun fyrir tvær verslanir, verslun að Akrabraut í Garðabæ og verslun fyrirtækisins í Rofabæ í Árbæ. Um tímamótaskref er að ræða í sögu umhverfisvottunar hér á landi, þar sem þetta er í fyrsta skipti sem verslun fær svansvottun.

„Það er gríðarlega verðmætt fyrir Umhverfisstofnun að fá inn Svansleyfishafa sem er sýnilegur í umræðunni í samfélaginu og nálægt neytendum,“ segir Elva Rakel Jónsdóttir, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Viðmið Svansins fyrir dagvöruverslanir

Viðmið Svansins fyrir dagvöruverslanir voru upprunalega þróuð árið 2003 og hafa tekið nokkrum breytingum síðan þá. Vottunin er heildræn nálgun á þeim umhverfisávinningi sem má ná af rekstri dagvöruverslana. Þar ber helst að nefna vöruúrval, orkunotkun, úrgangsstjórnun og matarsóun. Einnig er hugað að innkaupum verslananna sjálfra þar sem lögð er áhersla á umhverfisvottaðar vörur og þjónustu. Svansvottun hér á landi er eitt af fjölþættum verkefnum Umhverfisstofnunar.

Fjölþættar aðgerðir

Meðal aðgerða sem Krónan hefur gripið til er aukin áhersla er á úrval vara með umhverfisvottun og hefur fyrirtækið auðkennt þær í verslun, auk matvöru með lífræna vottun. Einnig var ráðist í að gera hollari vörur sýnilegri á sama tíma og sælgæti hefur verið fjarlægt af afgreiðslusvæði. Matvörur sem nálgast síðasta söludag eru lækkaðar í verði og settar á svæði merkt „síðasti séns – minnkum matarsóun“. Þá er Krónan einnig í samstarfi við aðila sem koma brauðmeti í áframnýtingu sem dýrafóður. Nýjar verslanir hafa verið hannaðar með orkusparnað að leiðarljósi og umhverfisvænni kælikerfi. Dregið hefur verið úr plastnotkun með því að auka úrval af fjölnota burðarpokum til muna en auk þess voru tekin skref til að færa ferska kjötvöru úr plastbökkum yfir í umbúðir úr aðgreinanlegum pappa og plastfilmu.

Umhverfisvænar lausnir

Fyrirtækið hefur einnig lagt áherslu á að rýna úrgangsmálin og dregið umtalsvert úr almennum úrgangi. Mikill árangur hefur náðst í að draga úr sóun á pappír og pappa en fyrirtækið hætti að prenta út fjölpóst 2016. Sama ár var ráðist í það verkefni að nota fjölnota kassa í innflutningi á ferskvöru sem spara um 162 tonn af pappakössum á ársgrundvelli. Fleira mætti nefna s.s. stefnumótandi ákvarðanir Krónunnar sem hafa leitt til gagngerra breytinga á rekstri og þjónustu verslananna sem skila sér í umhverfisvænni lausnum og vitundarvakningu meðal viðskiptavina.

Jákvæðir viðskiptavinir

,,Við hjá Krónunni erum ákaflega stolt af því að vera með fyrstu matvöruverslanirnar sem fá Svansvottun á Íslandi. Ferlið með Umhverfisstofnun er búið að vera mjög lærdómsríkt og gagnlegt fyrir okkur. Við erum staðráðin í að halda áfram vinnunni og fögnum því aðhaldi sem vottunin veitir okkur. Ég vil þakka viðskiptavinum okkar og starfsmönnum, sem hafa af jákvæðni og með opnu samtali tekið þátt í þessu ferli með okkur,“ segir Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar.

Norræna umhverfisvottunin 30 ára

Norræna umhverfismerkið Svanurinn var stofnað af Norrænu ráðherranefndinni árið 1989 og fagnar því 30 ára afmæli um þessar mundir. Ísland var með frá upphafi, ásamt Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og bættust Danir við í samstarfið nokkrum árum síðar. Í janúar á þessu ári undirrituðu forsetisráðherrar Norðurlandanna sameiginlega yfirlýsingu um kolefnishluthlaus Norðurlönd og undirstrikuðu þar með vilja sinn til að vera leiðandi þegar kemur að baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í yfirlýsingunni er Umhverfismerkinu Svaninum lyft sérstaklega upp sem eitt af þeim tólum sem er til staðar til að hvetja neytendur til að haga sinni neyslu með þeim hætti sem lágmarkar álag á umhverfið og loftslagið.

Á myndinni eru Hjördís Elsa fyrir hönd Krónunnar og Guðmundur Ingi ráðherra.