Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur borist umsókn um starfsleyfi fyrir fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar hf. á Neskaupstað. Fyrirhugað er að auka afköst verksmiðjunnar. Afkastageta hennar mun aukast úr 1.400 tonnum í 2.000 tonn á sólarhring, auk þess sem bæta á við annarri minni verksmiðju á norðausturhorni lóðar verksmiðjunnar sem verður með 380 tonna afkastagetu á sólarhring. Með þessu mun möguleg heildarafkastaaukning verða 980 tonn/sólarhring.

Skipulagsstofnun tók ákvörðun um matsskyldu fyrir framkvæmdina 14. janúar 2019 eftir móttöku á tilkynningu rekstraraðila um þessi áform. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framleiðsluaukningin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif sbr. þau viðmið sem gilda um þau og framkvæmdin væri því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Auk þess hefur legið fyrir beiðni Síldarvinnslunnar hf. um breytingu á starfsleyfi varðandi rýmkun á ákvæði starfsleyfis um losunarmörk í olíubrennurum og verður það mál sameinað þessu máli.


Unnið er úr umsókn og gerð starfsleyfistillögu. Tillaga að starfsleyfi verður auglýst opinberlega þegar hún liggur fyrir og gefst þá öllum tækifæri að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins verður tekin.