Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið breytingartillögu að starfsleyfi fyrir Vinnslustöðina hf. í Vestmannaeyjum. Breytingartillagan er auglýst á tímabilinu 25. júlí til 23. ágúst 2019.

Umsóknin á sér aðdraganda í samskiptum sem átt hafa sér stað milli Umhverfisstofnunar og Félags íslenskra fiskimjölsframleiðanda um rykmörk í olíubrennurum í fiskimjölsverksmiðjum. Í minnisblaði sem gert var af verkfræðistofunni Mannvit fyrir félagið kom fram að þegar um er að ræða stuttan rekstrartíma er erfiðara að ná losunarmörkum í olíubrennurum. Í minnisblaðinu má einnig finna yfirlit um hvað hægt sé að gera til að draga úr rykmyndun. Þessi gögn ásamt svarbréfi Umhverfisstofnunar fylgja þessari tilkynningu.

Bent hefur verið á af hálfu fiskimjölsverksmiðjanna að stefnt sé að rafmagnsvæðingu. Viss þörf er þó enn á olíubrennurum sem varaleið. Umhverfisstofnun setti rykmörk á olíubrennara hjá Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum við útgáfu starfsleyfis 2014 en slík mörk voru ekki áður. Umhverfisstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að mótteknum sjónarmiðum iðnaðarins að rýmka megi losunarmörkin með þeim hætti að breyta viðmiðun um súrefnisprósentuna að rauntölum og fellst á að hækka hana fyrir Vinnslustöðina hf. úr 3% í 9%. Þetta byggir meðal annars á þeim rökum að mælingar hafa almennt sýnt hærri súrefnisprósentu en 3% í olíubrennurunum og hefur mest mælst 13,5 % af súrefni. Þykir því rétt að fallast á aðra raunhæfari viðmiðun hvað þetta varðar fremur en að fylgja eftir losunarmörkum með óbreyttri súrefnisviðmiðun.

Einnig hefur verið fallist á að losunarmörkin falli úr gildi ef hlutfall notkunar olíubrennara nær ekki 3% af keyrslutíma verksmiðjunnar. Því er gert ráð fyrir ákvæði um skráningar á keyrslutíma olíubrennara samanber brennslu með rafmagni.

Greinargerð mun fylgja starfsleyfisbreytingunni við útgáfu á breyttu starfsleyfi sbr. 6. gr. rg. nr. 550/2018.

Athugasemdir (eða umsagnir) um tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Öllum er heimilt að gera athugasemdir og frestur til þess er til og með til 23. ágúst 2019.

Tengd skjöl