Stök frétt

Í baráttunni gegn hlýnun jarðar er takmörkun losunar á gróðurhúsalofttegundum mikilvægur þáttur. Stór hluti hennar stafar af brennslu fljótandi jarðefnaeldsneytis. Þegar rætt er um losun koltvísýrings (CO2) snýst umræðan oftast um losun vegna sjálfrar notkunarinnar á eldsneytinu, t.d. þegar við erum að keyra bílinn okkar eða þegar bóndi notar traktorinn sinn. Það vill gleymast að einnig á sér stað heilmikil losun við framleiðslu á orku og flutning á öllu fljótandi eldsneyti á notkunarstað.

Reglugerð um gæði eldsneytis gildir um ökutæki til nota á vegum og færanlegan vélbúnað til nota utan vega, þ.m.t. skip í siglingum á skipgengum vatnaleiðum þegar þau eru ekki á sjó, dráttarvélar fyrir landbúnað eða skógrækt og skemmtibáta þegar þeir eru ekki á sjó. Eitt af markmiðum reglugerðarinnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á vistferli fyrir hverja afhenta orkueiningu. Með innleiðingu hennar hefur Ísland skuldbundið sig til að minnka þessa losun um 10% fram til 31. desember 2020.

Árið 2018 áttu sér stað fyrstu skil á skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda á vistferli fyrir hverja orkueiningu úr eldsneyti og afhentri orku og var Ísland meðal fyrstu ríkja til að taka þátt í þeim. Skilin leiddu í ljós að birgjar eldsneytis hér á landi hafa saman náð 4,6% samdrætti í losun af þessum toga árið 2017, sem þýðir að Ísland er tæplega hálfnað að ná markmiðinu um 10% samdrátt fyrir 31. desember 2020. Taka skal þó fram að hver og einn ber ábyrgð á eigin minnkun og þessi tala endurspeglar ekki árangur allra heldur er um að ræða meðaltal ársins 2017.

Leiðir til að ná samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á vistferli fyrir hverja orkueiningu felast í því að stytta flutningsleiðir fyrir fljótandi eldsneyti, blanda út í það og/eða nota endurnýjanlegt eldsneyti. Þá er aukin notkun rafmagnsbíla eða orkugjafa sem ekki valda mikilli losun gróðurhúsalofttegunda af hinu góða. Vonast er til að markmiðið um samdrátt í losun hjálpi til við að ýta orkuþróuninni í þá átt að framleiðslu orkugjafa fylgi eins lítil losun af gróðurhúsalofttegundum og mögulegt er.

Mynd: Wikimedia Commons