Stök frétt

Þann 8. júní sl. fékk Tandur hf. Svansleyfi fyrir eigin framleiðslu á uppþvottaefnum til iðnaðarnota. Um er að ræða þrjár vörur sem framleiddar eru af Tandri, uppþvottaefnin ECO Plús og QED Plús ásamt eftirskolunarefni sem nefnist ECO Gljái.

Umhverfisstofnun fagnar því að fleiri framleiðslufyrirtæki á Íslandi horfi til Svansins og bjóði upp á umhverfisvottaðar vörur sem framleiddar eru hérlendis. Þegar kemur að vottun á uppþvottaefnum gerir Svanurinn strangar kröfur til allra innihaldsefna sem tryggir að lokavaran hefur ekki neikvæð áhrif á umhverfið, og þá sérstaklega lífríki sjávar. Einnig eru gerðar kröfur á umbúðir, upplýsingar til viðskiptavina og innri gæðakerfi svo eitthvað sé nefnt.

„Tandur á hrós skilið fyrir framsýni og vasklega framgöngu í öllu umsóknarferlinu. Umhverfisstofnun óskar fyrirtækinu innilega til hamingju með áfangann og hlakkar til samstarfsins næstu ára,“ segir sérfræðingur í teymi Græns samfélags hjá Umhverfisstofnun,

Á myndinni afhendir Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri loftslagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun, Birgi Erni Guðmundssyni, gæðastjóra Tandurs, Svansleyfið. Með þeim á myndinni eru Jónas Guðmundsson, sölustjóri Tandurs og Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur í teymi græns samfélags hjá Umhverfisstofnun.