Stök frétt

Fyrirtækið Allt hreint var stofnað árið 1993 af Halldóri Guðmundssyni, árið 2005 sameinaðist Allt hreint Ræstingarþjónustu Hilmars Sölvasonar og hefur síðan þá verið stærsta ræstingarþjónustan á Reykjanessvæðinu. Allt hreint er með u.þ.b. 30 starfsmenn og er starfsmannavelta lítil en fyrirtækið þjónustar í dag Reykjanesbæ með alla grunnskóla bæjarins, Icelandair og IGS með alla ræstingu á starfmanna- og veitingarými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE), Tollstjórann í FLE, Landsbankann, Byko, Húsasmiðjuna, Eykt, ÍAV ofl. 

Lengi hafa umhverfismál verið fyrirtækinu hugleikin en Allt hreint tók þá stefnu árið 2009 að nota að mestu umhverfisvæn efni í daglegri ræstingu. Árið 2013 var tekin sú ákvörðun að sækjast eftir Svansvottun og 29. janúar síðast liðinn hlaut fyrirtækið Svansvottun. Gekk ferlið afar vel hjá fyrirtækinu sem var vel undir það búið að takast á við verkefni. Svansvottuð ræstingarþjónusta lágmarkar umhverfisáhrif sín með því að auka notkun fyrirtækisins á umhverfisvottuðum ræstiefnum, en einnig með því minnka efnanotkun við daglegar ræstingar. Þar að auki þurfa Svansvottaðar ræstingarfyrirtæki að uppfylla ákveðnar kröfur varðandi eldsneytisnotkun fyrirtækisbíla og sorpflokkun. 

Svansleyfishafar á Íslandi eru nú 27 talsins, þar af eru 7 Svansvottuð ræstingarfyrirtæki en Allt hreint er fyrsta – og enn sem komið er, eina- Svansvottaða ræstingarþjónustan á Suðurnesjum. Áhugi íslenskra fyrirtækja á Svaninum eykst sífellt og enn fleiri hótel hafa nú þegar sótt um Svaninn. Það verður þó að teljast sérstakt að helmingur þeirra sem eru með vottun í þessum þjónustuflokki í dag eru farfuglaheimili og má því segja að Farfuglar hafi unnið mikið frumkvöðla starf. 

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.