Stök frétt

Norræna umhverfismerkið Svanurinn fagnar 20 ára afmæli sínu í ár. Jafnhliða því hefur Svanurinn náð þeim merka áfanga að alls er búið að veita 2000 Svansleyfi fyrir ýmis konar vörur og þjónustu. Það er tölvuframleiðandinn Lenovo sem hefur orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá tvöþúsundasta Svansleyfið. Það er gefið út fyrir orkusparandi tölvur.

Svanurinn gerir neytendum kleift að velja umhverfisvænni vörur og þjónustu sem hafa minni skaðleg heilsuáhrif. Strangar kröfur Svansins tryggja að búið er að lágmarka neikvæð umhverfis- og heilsuáhrif tengd ferli vörunnar, allt frá hráefnis- og orkunotkun, notkun hættulegra efna, flutninga, meðhöndlun úrgangs o.fl.

Hér á landi eru 5 Svansleyfi í gildi og búist er við að fleiri bætast í hópinn fljótlega en Umhverfisstofnun hafa borist 14 umsóknir um Svansvottun. „Það er ánægjulegt að sjá að fjölda merktra vara og þjónustu fjölgar sífellt,“ segir Anne Maria Sparf, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sem hefur umsjón með Svaninum á Íslandi. „Því fleiri vörur sem við fáum inn á íslenska markaðinn því auðveldara verður fyrir neytendur að velja vörur sem eru betri fyrir umhverfið og heilsuna.“

Lenovo Svansmerkt fartölvaSvansmerktar tölvur, eins og frá Lenovo, eru orkusparandi, auk þess sem búið er að lágmarka notkun hættulegra efna, svo sem þungmálma og eldvarnaefna. Öll plastefnin í tækin þurfa að vera klórfrí. Lögð er áhersla á að notkunarþægindi, uppfærslumöguleikar og endurvinnanleiki tækjanna sé eins og best verður á kosið. M.a. eru gerðar kröfur um lágmörkun hávaða og rafsegulsviðs. Nýherji er samstarfsaðili Lenovo á Íslandi. „Nýherji hefur lagt aukna áherslu á umhverfismál síðustu ár og er það ánægjulegt að Lenovo, einn okkar stærsti samstarfsaðili, skuli fá Svansvottun fyrir sínar vörur. Lenovo hefur haft skýra umhverfisstefnu í gegnum tíðina. Svansleyfið er því mikilvægt skref fyrir Lenovo og staðfesting á að fyrirtækið sé í fararbroddii í umhverfismálum ,“ segir Emil Einarsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Nýherja.

Eftirfarandi tegundir Lenovo fartölva eru með Svansvottun: IdeaPad S12, Lenovo U450, Lenovo G550, og ThinkPad (R400, SL400, SL500 SL 510, L510, T400, T400s, T500, W500).