Umhverfistofnun - Logo

Friðland að Fjallabaki

Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnunar, Rangárþings-ytra og Náttúrufræðistofnunar Íslands unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Friðland að Fjallabaki í samráði við ýmsa hagsmunaaðila. 

Drög að áætluninni hafa nú verið lögð fram til kynningar og má nálgast þau hér að neðan auk kynningar á áætluninni. Samráð er mikilvægur þáttur við gerð slíkra áætlana og hvetur Umhverfisstofnun þá sem láta sig málefni friðlandsins varða til að kynna sér drögin og senda inn athugasemdir. Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum er til og með 22. maí 2020.

Friðland að Fjallabaki var friðlýst árið 1979. Megin einkenni svæðisins eru fjölbreytt landslag og landslagsheildir, mikill breytileiki jarðminja og jarðhitafyrirbæra, sérstakt en viðkvæmt lífríki, víðerni, kyrrð og litadýrð. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda þessar sérstæðu jarðminjar, landslag, lífríki og ósnortin víðerni. Innan marka Friðlands að Fjallabaki eru Landmannalaugar sem er einn fjölsóttasti viðkomustaður ferðamanna á hálendi Íslands. Frá Landmannalaugum liggur ein vinsælasta hálendisgönguleið landsins, Laugavegurinn.

Samkvæmt 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar að hafa umsjón með gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði. Í þeim er lögð fram stefnumótum til næstu 10 ára ásamt aðgerðaáætlunar til þriggja ára. 

Hér að neðan er að finna verk- og tímaáætlun, samráðsáætlun og fleiri skjöl vegna verkefnisins. Lögð er áhersla á opið og gagnsætt ferli og eru einstaklingar hvattir til að kynna sér þá vinnu sem hefur farið fram.

Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum með því að senda tölvupóst til Umhverfisstofnunar á netfangið ust@ust.is, eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 

Frekari upplýsingar veita Hákon Ásgeirsson, (hakon.asgeirsson@umhverfisstofnun.is), Aron Geir Eggertsson,(aron.eggertsson@umhverfisstofnun.is) og Hildur Vésteinsdóttir, (hildurv@umhverfisstofnun.is)  í gegn um tölvupóst eða í síma 591-2000/591-2134.