Friðland að Fjallabaki

Fulltrúar Umhverfisstofnunar og Rangárþings-ytra vinna nú að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðland að Fjallabaki.

Friðland að Fjallabaki var friðlýst árið 1979. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstæðar jarðminjar og landslag. Tilgangur friðlýsingarinnar er að varðveita sérstök landsvæði þannig að núverandi og komandi kynslóðir hafi tækifæri til að njóta þeirrar náttúru- og menningarminja sem svæðið hefur upp á að bjóða. Fjölbreytt landslag og landslagsheildir, mikill breytileiki jarðminja og jarðhitafyrirbæra ásamt litadýrð svæðisins, sérstakt en viðkvæmt lífríki, öræfaauðn, kyrrð og víðernig eru megineinkenni friðlands að Fjallabaki. Landmannalaugar eru eitt af mest sóttu útivistarsvæðum á hálendi Íslands og þaðan liggur ein vinsælasta gönguleið landsins, Laugavegurinn. Í friðlýsingarskilmálum fyrir friðland að Fjallabaki er fjallað um dvöl manna, umferð og umgengni.

Samkvæmt 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar að hafa umsjón með gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði. Í þeim er lögð fram stefnumótun til næstu 10 ára ásamat aðgerðaáætlun til 5 ára.

Frekari upplýsingar um friðland að Fjallabaki má m.a. finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Hér að neðan er að finna verk- og tímaáætlun og samráðsáætlun vegna verkefnisins. Lögð er áhersla á opið og gagnsætt ferli og eru einstaklingar hvattir til þess að kynna sér verkefnið og senda inn athugasemdir og ábendingar.

Frekari upplýsingar veita Hildur Vésteinsdóttir, hildurv@umhverfisstofnun.is, Aron Geir Eggertsson, aron.eggertsson@umhverfisstofnun.is og Hákon Ásgeirsson, hakon.asgeirsson@umhverfisstofnun.is, eða í síma 591-2000.