Umhverfistofnun - Logo

Afmælisgrein - Kristinn Jónasson

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull 20 ára – hvað hefur áunnist?

Það er með mikilli ánægju sem við fögnum 20 ára afmæli Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls þann 28. júní næstkomandi.  Þessi tími frá því að þjóðgarðurinn var stofnaður hefur liðið hratt  og verið tími mikilla framfara.Ég fæ oft þá spurningu hvað hefur áunnist með stofnun þjóðgarðsins og langar mig hér að fara  yfir nokkra þætti hvað það varðar.

Sjálfur er ég ekki í nokkrum vafa um að stofnun þjóðgarðsins var mikið heillaspor fyrir svæðið. Ég held að ég geti fullyrt það að samfélagið hér í Snæfellsbæ, á Snæfellsnesi og á Vesturlandi er mun ríkara með því að hafa þjóðgarð á sínu svæði.

Í undirbúningsnefndinni sem kom að stofnun þjóðgarðsins var margt rætt og m.a. hvaða áhrif þjóðgarðurinn gæti haft á sitt nærsamfélag. Okkur voru m.a. sýndar tölur yfir svæði þar sem þjóðgarðar höfðu verið stofnaðir og þar sem vel tókst til fjölgaði ferðamönnum á svæðið um allt að 400%.  Ég verð að viðurkenna það að ég var ekki alveg að trúa þessum tölum en í tilefni tímamótanna  fór ég í þá vinnu á liðnu ári að kanna hvernig þetta liti út hjá okkur.

Skoðun mín leiddi það í ljós að  frá stofnun þjóðgarðs hefur bílaumferð um svæðið aukist um  344% og ferðamönnum sem sækja svæðið fjölgað úr 150 þúsund á ári í rúm 600 þúsund og þar af fóru um 450 þúsund í þjóðgarðinn sjálfan.

En hvað þýðir það fyrir svæði að þar sé stofnaður þjóðgarður? Það er auðvitað margt og mikið en eitt er það að gerð er verndaráætlun fyrir svæðið. Gefin er út reglugerð fyrir þjóðgarðinn þar sem settar eru nokkurs konar  umgengnis- og samskiptareglur um svæðið,  gerð er friðlýsing fyrir svæðið og svo framvegis.  Sem sagt heilmikil vinna fer af stað og síðan tekur við regluleg yfirferð á þessu öllu saman.

Auk lögbundinna áætlana og regluverks  var farið í markvissa vinnu í uppbyggingu innviða  á viðkomandi svæði, vinnu sem m.a. felst í lagningu og merkingu göngustíga, lagfæringu á eldri stígum, gerð eru bílastæði, útbúin salernisaðstaða, áningastaðir byggðir, byggingar reistar eða endurgerðar og svo framvegis.

Eitt af því sem við fengum með tilkomu þjóðgarðsins var endurgerð á Útnesveginum en hann fékk sérstaka fjárveitingu á sínum tíma til að hægt væri að endurbyggja hann og leggja á bundið slitlag.

Gestastofa þjóðgarðsins var fyrstu árin í leiguhúsnæði á Hellnum en árið 2016  var ný glæsileg gestastofa tekin í notkun á Malarrifi.  Fjöldi gesta kemur í gestastofuna ár hvert og þeim fer fjölgandi.  Árið 2004  heimsóttu 3102 gestir gestastofuna en árið 2019 var fjöldi gesta kominn í  90.000. Þessar tölur sýna okkur hversu mikilvæg uppbyggingin á þessari þjónustu er fyrir svæðið.

Vatnshellir er eitt að því góða sem er innan þjóðgarðsins og var farið í það að gera hann aðgengilega ferðamönnum sem koma á svæðið. Frá því að hann var tekin í notkun hefur fjöldi þeirra sem hann heimsækja aukist úr 3500 árið 2010 í 43.000 árið 2019.

Þjóðgarðurinn er  með fasta starfsmenn á sínum snærum og nú eru þar starfandi 3 starfsmenn allt árið. Þessu til viðbótar bætist við fjöldi landvarða yfir háannatímann frá apríl  og fram í október. Allt þetta skiptir máli og eykur fjölbreytni starfa á svæðinu.  Auk beinna starfa í þjóðgarðinum hefur fjöldi einstaklinga og fyrirtækja  í gegnum árin haft  vinnu við verkefni í þjóðgarðinum auk afleiddra starfa í ýmsum greinum. Ferðaþjónusta á svæðinu hefur eflst mikið og ég er ekki í vafa að þjóðgarðurinn hefur haft þar mikið að segja.  Öll gerum við okkur þó grein fyrir því að ferðamönnum hefur fjölgað mikið á stuttum tíma á Íslandi og þá er ég að sjálfsögðu að tala um tímann fyrir Covid.

Það er mikilvægt að fólk átti sig á því hversu miklu hlutverki þjóðgarðurinn gegnir í ferðaþjónustu á svæðinu. Ekki aðeins  með uppbyggingu innviða heldur einnig í upplýsingargjöf fyrir ferðamenn, með skipulögðum gönguferðum, fræðslu,  miðlun upplýsinga  og svo framvegis.

Uppbygging innan svæðisins frá stofnun þjóðgarðsins byrjaði hægt og litlir fjármunir fengust til framkvæmda í upphafi en segja má að frá árinu 2010 hafi orðið mikil breyting á og fengist hafa verulegar upphæðir til framkvæmda innan þjóðgarðsins og þá sérstaklega nú síðustu ár.

Eitt af þeim verkefnum sem dregist hafði mjög að byrja á var bygging þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi sem m.a. mun hýsa skrifstofur þjóðgarðsins, upplýsingamiðstöð og sýningarsal en nú er sú framkvæmd hafin og gert ráð fyrir að framkvæmdum muni ljúka vorið 2022.  Með tilkomu þjóðgarðsmiðstöðvarinnar mun starfsemi þjóðgarðsins eflast enn frekar og enginn vafi er í mínum huga á að það muni hafa mikil áhrif um allt svæðið.  Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við framkvæmdina verði um 700 m.kr.

Jákvæð umfjöllun og athygli á svæðinu hefur aukist með tilkomu þjóðgarðsins  en áhugi á þjóðgörðum er ekki bundinn við Ísland, þjóðgarðar um allan heim vekja áhuga og draga að ferðamenn. Það er einnig ánægjulegt að verkefni sem hafa verið unnin innan þjóðgarðsins hafa hlotið athygli og sum þeirra fengið alþjóðlegar viðurkenningar eins og tröppustígurinn upp á Saxhól.

Ef við horfum til þeirrar uppbyggingar sem hefur orðið  í þjóðgarðinum þau 20 ár sem hann hefur verið starfandi þá er ljóst að sveitarfélagið hefði aldrei haft fjármagn til að framkvæma allt sem þar hefur verið gert. Upphæðirnar skipta hundruðum milljóna og með byggingaframkvæmdum erum við að tala um milljarða sem ekki hefðu komið inn á svæðið nema fyrir tilstuðlan þjóðgarðsins.

Í þjóðgarðinum er mikið af sögufrægum stöðum og náttúrufyrirbærum sem vert er að heimsækja og leggur fólk leið sína á þessa staði í miklum mæli.  Til að geta tekið á móti fólki svo sómi sé að þá þarf að hafa gott aðgengi að þeim og með tilkomu þjóðgarðsins hefur mikið áunnist í þeim efnum.

Hægt væri að telja upp marga staði þar sem aðgengið hefur verið bætt en ég læt nægja að nefna aðeins nokkra í því sambandi.  Við erum með gott bílastæði við Svalþúfuna og ofan á bjarginu sjálfu hafa verið reistir útsýnispallar.  Við erum með svæðið á Malarrifi sem er afar skemmtilegt með leiktækjum og skemmtilegum gönguleiðum, Vatnshellir þar sem komið er rafmagn og ljósleiðari.  Dritvík og Djúpalónsandur þar sem aðgengið hefur verið bætt til muna með stígagerð og upplýsingaskiltum.  Saxhóll endurbættur vegur og bílastæði og tröppustígur upp á hólinn sjálfan.  Skálasnagi þar sem eru afar skemmtilegir útsýnispallar yfir bjargið og umhverfið þar.  Skarðsvíkin þar sem aðgengi hefur verið bætt og svona mætti lengi telja.

Uppbyggingunni er sannarlega ekki lokið, í raun líkur henni aldrei og mörg verkefni sem bíða næstu ára.  Spennandi verður að fylgjast með á næstu árum hvernig þjóðgarðurinn mun vaxa og dafna svæðinu til heilla. 

Í mínum huga er Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull eitt af þeim mikilvægu  jákvæðu skrefum  sem stigin hafa verið á svæðinu.  Sú framsýni sem menn höfðu á sínum tíma hefur haft mikil og jákvæð áhrif fyrir svæðið.  Þjóðgarðurinn er gott dæmi um jákvæða náttúruvernd sem skilar samfélaginu okkar miklu og ég held að flestir  sem hér búa hugsi til þjóðgarðsins  með jákvæðum huga og miklu stolti.

Innilega til hamingju með afmælið.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ