Kúluskítur

Kúluskítur var friðlýstur sem tegund árið 2006. Um er að ræða vaxtarform grænþörungsins vatnaskúfs (Aegagropila linnaei) og er hann friðaður hvar sem hann vex villtur. Markmið friðlýsingarinnar er að tryggja vöxt og viðgang kúluskíts og vernda hann fyrir röskun en hann er mjög sjaldgæfur og hefur fáa þekkta vaxtarstaði hér á landi. Auk þess er hann viðkvæmur fyrir mengun og annarri umhverfisröskun. Með friðlýsingunni er stuðlað að verndun líffræðilegrar fjölbreytni landsins.

Vatnaskúfur lifir í fersku vatni og finnst í nokkrum vötnum hér á landi, m. a. Mývatni, Þingvallavatni, Kringluvatni í Suður-Þingeyjarsýslu og Snjóölduvötnum á Héraði.