Geysir í Haukadal

Um Geysissvæðið

Geysissvæðið í Haukadal er eitt þekktasta hverasvæði jarðar, enda eitt fárra sem þekkt var í árhundruð. Geysir gefur erlendum hverum nafn, „geyser”, og hverahrúður er á erlendum málum oft kallað „geyserite”. Fjölmargir hverir og laugar eru á svæðinu og eru goshverirnir Geysir og Strokkur þekktastir. Marteinslaug er friðlýst sem fornminjar en þar var reist torfsundlaug og var þar sundkennsla fyrir börn í sveitinni fram á síðustu öld. 

Svæðið var friðlýst 17. júní 2020.

Árið 1894 keypti breskur maður hluta hverasvæðisins og rukkaði hann þá fyrir aðgang að því. Síðar gaf hann vini sínum svæðið. Árið 1935 keypti Sigurður Jónasson landið aftur og gaf það íslensku þjóðinni. Eftir að Geysissvæðið var girt af náði gróðurinn sér og eru þar þekktar yfir 125 tegundir háplantna og yfir 20 mosategundir.

Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á svæðinu til lengri tíma, m.a. á goshegðun Geysis og Strokks. Geysissvæðið er fjölsóttur ferðamannastaður og er áætlað að allt að 70% af ferðamönnum sem heimsækja landið árlega komi að Geysi. Vegna mikils álags ferðamanna hefur Umhverfisstofnun sett svæðið á lista yfir þau 10 verndarsvæði á Íslandi sem eru í hættu á að tapa verndargildi sínu. 

 

Svæði í hættu

Svæðið er á rauða listanum

Styrkleikar

Svæðið er sérstakt á heimsvísu og dregur að sér fjölmarga ferðamenn enda eitt þekktasta hverasvæði jarðarinnar. Talið er að allt að 70% þeirra ferðamanna sem koma til landsins heimsæki Geysissvæðið Unnið var við lagfæringar á hellulögðum göngustíg svæðisins. Hannaður var og settur upp nýr göngupallur við Blesa auk öryggisgirðingar með táknmyndum þar sem fólk er varað við hættu vegna heits vatns og það beðið um að henda ekki smámynt í hverina. Stofnað hefur verið formlegt landeigendafélag fyrir svæðið. Umhverfisstofnun hefur bætt við heilsárslandvörslu fyrir Suðurland sem hefur aðstöðu á Hellu.

Veikleikar

Vistkerfi svæðisins er mjög viðkvæmt. Jarðvegur er víða blautur og traðkast auðveldlega út. Hverahrúður skemmist þegar gengið er á því. Gróður er sérstaklega viðkvæmur á svæðinu og er landið auðrofið. Svæðið er lítið og erfitt að dreifa ferðamönnum um það.

Ógnir 

  • Svæðið er meðal fjölsóttustu ferðamannastaða á Íslandi og er það heimsótt allt árið um kring. 
  • Hagsmunaárekstrar hafa komið upp vegna nýtingar svæðisins. 
  • Svæðið er ekki friðlýst og óljóst hver ber ábyrgð á svæðinu í heild sinni.
  • Skipulag fyrir svæðið skortir. 

 Tækifæri

  • Gerð verndaráætlunar. 
  • Skipuleggja þarf svæðið með stýringu umferðar í huga.
  • Laga þarf flesta núverandi göngustíga eða smíða göngupalla. 
  • Útfæra þarf gróðurverndunargirðingar þannig að þær þurfi ekki stanslaust viðhald. 
  • Svæðið þarfnast heilsársumsjónar.