Umhverfistofnun - Logo

Um friðlandið

Horft yfir friðlandið af Söðli við Hrafntinnusker.

Friðland að Fjallabaki var friðlýst árið 1979. Tilgangur friðlýsingar er að varðveita sérstök landsvæði þannig að komandi kynslóðir hafi tækifæri til að njóta þeirra á sama hátt og við gerum. Til þess að svo geti orðið gilda ákveðnar reglur um umgengni til að hindra spjöll á náttúru eða röskun á svip landins. Fjölbreytt landslag, sérstakt en viðkvæmt lífríki, öræfaauðn og kyrrð eru meginenkenni Friðlands að Fjallabaki, og þangað leita árlega þúsundir manna til að njóta þessara náttúrugæða. Gestir svæðisins eru beðnir um að virða umgengnisreglur friðlandsins og leggja þannig sitt af mörkum svo að tilgangi friðlýsingar verði náð, þannig að allir bæði við og afkomendur okkar, fái notið náttúru friðlandsins til fullnustu.

Friðlandið er 44,633,4 ha að stærð og allt ofan 500 m hæðar yfir sjó. Landið er fjöllótt og mótað af eldvirkni, og jarðhita. Litadýrð er mikil, m.a. fyrir líparít og hrafntinnu í fjöllum. Hraun, ár og vötn setja líka svip á landslagið.  

Stjórnunar- og verndaráæltun

Stjórnunar- og verndaráætlun er í vinnslu og var lögð fram til kynningar í 6 vikur til og með 22. maí sl. Nú stendur yfir úrvinnsla athugasemda og verða svör við þeim birt hér á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Í framhaldinu verður áætlunin send til ráðherra til undirritunar. 

Ýmis gögn er varða friðlandið

Aðgengi

Fjallabaksleið nyrðri (F208), liggur á milli Lands og Skaftártungu, í gegnum Friðland að Fjallabaki. Landmannaleið (F225) liggur frá veg 26 áleiðis í Landmannahelli um Dómadal og tengist inn á veg 208 við Frostastaðavat. Sigölduleið (208) liggur frá Sprengisandsvegi (F26) í Landmannalaugar. 

Óvíða mun land viðkvæmara fyrir skemmdum vegna umferðar en hér og er því sérstaklega beint til ökumanna að kynna sér ástand vega áður en lagt er upp í ferð um friðlandið og aka alls ekki út fyrir þá vegi sem sýndir eru á korti.

Veðurfar

Meðalárshiti í Friðlandi að Fjallabaki er líklega 0-1 °C. Júlí er hlýjasti mánuður ársins og er meðalhiti hans 7-8 °C. Meðalhiti köldustu mánaðanna, janúar og febrúar, er hins vegar um ÷ 6 °C. Rétt er að hafa hugfast að meðalhiti einstakra mánaða er ákaflega breytilegur frá ári til árs. Vetraraðstæður með frosti geta komið hvenær ársins sem er. Við Torfajölkul, í suðausturhorni friðlandsins, er ársúrkoma sennilega á bilinu 2 - 3 þús. mm en minnkar síðan ört til norðurs og norðvesturs og er líklega komin niður í um þúsund mm í nyrsta hluta firðlandsins.