Umhverfistofnun - Logo

Um friðlandið

Friðland að Fjallabaki var friðlýst árið 1979. Tilgangur friðlýsingar er að varðveita sérstök landsvæði þannig að komandi kynslóðir hafi tækifæri til að njóta þeirra á sama hátt og við gerum. Til þess að svo geti orðið gilda ákveðnar reglur um umgengni til að hindra spjöll á náttúru eða röskun á svip landins. Fjölbreytt landslag, sérstakt en viðkvæmt lífríki, öræfaauðn og kyrrð eru meginenkenni Friðlands að Fjallabaki, og þangað leita árlega þúsundir manna til að njóta þessara náttúrugæða. Gestir svæðisins eru beðnir um að virða umgengnisreglur friðlandsins og leggja þannig sitt af mörkum svo að tilgangi friðlýsingar verði náð, þannig að allir bæði við og afkomendur okkar, fái notið náttúru friðlandsins til fullnustu.

Friðlandið er allt ofan 500 m hæðar yfir sjó. Landið er fjöllótt og mótað af eldvirkni, og jarðhita. Litadýrð er mikil, m.a. fyrir líparít og hrafntinnu í fjöllum. Hraun, ár og vötn setja líka svip á landslagið. Þúsundir ferðalanga leita ár hvert á vit öræfaauðnarinnar.

Ráðgjafarnefnd friðlands að Fjallabaki og Umhverfisstofnun vinna nú að gerð verndaráætlunar fyrir friðlandið. Lögð er áhersla á opið og gagnsætt ferli og hægt að nálgast allar upplýsingar á vef Umhverfisstofnunar.

Hvar er friðlandið?

Friðlandið er 44.633,4 ha og er allt ofan 500 metra hæðar yfir sjó. Landið er fjöllótt, mótað af eldvirkni og jarðhita, þakið hraunum og söndum, ám og vötnum.

Aðgengi

Hin forna Landmannaleið, (nú oft kölluð Fjallabaksvegur nyðri) liggur á milli Lands og Skaftártungu, í gegnum Friðland að Fjallabaki.

Fjölfarin leið inn á Landmannaleiðina er einnig úr norði, frá Sigöldu, og sameinast sá vegur meginleiðinni rétt norðan Frostastaðavatns.

Óvíða mun land viðkvæmara fyrir skemmdum vegna umferðar en hér og er því sérstaklega beint til ökumanna að kynna sér ástand vega áður en lagt er upp í ferð um friðlandið og aka alls ekki út fyrir þá vegi sem sýndir eru á korti.

Meðalárshiti í Friðlandi að Fjallabaki er líklega 0-1 °C. Júlí er hlýjasti mánuður ársins og er meðalhiti hans 7-8 °C. Meðalhiti köldustu mánaðanna, janúar og febrúar, er hins vegar um ÷ 6 °C. Rétt er að hafa hugfast að meðalhiti einstakra mánaða er ákaflega breytilegur frá ári til árs. Vetraraðstæður með frosti geta komið hvenær ársins sem er. Við Torfajölkul, í suðausturhorni friðlandsins, er ársúrkoma sennilega á bilinu 2 - 3 þús. mm en minnkar síðan ört til norðurs og norðvesturs og er líklega komin niður í um þúsund mm í nyrsta hluta firðlandsins.