Umhverfistofnun - Logo

Varmárósar Mosfellsbæ

Fulltrúar Umhverfisstofnunar, Mosfellsbæjar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis hafa undanfarið unnið að undirbúningi að endurskoðun friðlýsingar Varmárósa í Mosfellsbæ. Tillaga að endurskoðaðri auglýsingu og breyttum mörkum svæðisins er hér með lögð fram til kynningar.


Varmárósar voru fyrst friðlýstir árið 1980 en friðlýsingin var endurskoðuð árið 2012. Svæðið hefur verið skráð á náttúruminjaskrá fár árinu 1978. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í því a það er mikilvægt fyrir vernd fágætrar tegundar auk þess sem fitjarnar eru sérstæðar að gróðurfari og mikilvæg vistkerfi fyrir fugla. Innan friðlandsins er að finna vistgerðir sem hafa hátt verndargildi, t.a.m. sjávarfitjungsvist sem er mikilvæg fyrir bæði fuglategundir og sjaldgæfar plöntutegundir. Þá er friðlandið einnig hluti af stærra svæði í Leirvogi sem er alþjóðlega mikilvægt fyrir fuglategundirnar margæs og sendling. 


 Markmið þeirrar tillögu sem nú er lögð fram er að vernda og viðhalda fitjasefi og búsvæði þess sem og náttúrulegu ástandi votlendisins ásamt sérstöku gróðurfari sem þar er og bú- og fæðusvæði fyrir fugla. Einnig er markmið með friðlýsingunni að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins með áherslu á plöntuna fitjasef, búsvæði hennar og þær votlendisvistgerðir sem er að finna á svæðinu. Enn fremur er það markmið friðlýsingarinnar að treysta útivistar-, rannsókna- og fræðslugildi svæðisins. 

Frestur til að skila inn athugasemdum og ábendingum er til og með 15. janúar 2021. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar , með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 

Frekari upplýsingar veita Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@ust.is) og Aron Geir Eggertsson (aron.eggertsson@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000. 

Tengd skjöl: 

Tillaga að auglýsingu um friðlýsingu svæðisins
Kort
Hnitaskrá 

 

 

Upplýsingar

Skrár