Umhverfistofnun - Logo

Urriðakotshraun

Umhverfisstofnun, í samstarfi við Garðabæ og Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowa, hefur unnið að undirbúningi friðlýsingar Urriðakotshrauns í Garðabæ. 

Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann snemma á nútíma fyrir um 8100 árum. Hraunið er svokallað klumpahraun og er jaðar þess uppbelgdur og úfinn. Í hrauninu eru sveigðir hryggir á yfirborði og úfnir hraukar við jaðrana. Nokkuð er um hraunhella og kallast þeir Selgjárhellar og Maríuhellar. Heitir hraunið Smyrlabúðarhraun við Selgjá og frá Selgjá að Maríuhellum heitir hraunið Urriðakotshraun. Býr svæðið yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum og í því felast miklir möguleikar til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu. Innan svæðisins liggja m.a. göngu- og reiðstígar. 

Markmið friðlýsingarinnar

Markmið friðlýsingarinnar er að stofna fólkvang, svæði til útivistar og almenningsnota, þar sem jarðmyndanir, menningarminjar og gróðurfar eru verndaðar. Í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni, m.a. á umferðarrétti, notkun veiðiréttar og framkvæmdum. Þá er jafnframt heimilt að kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.

Tillaga að friðlýsingu auglýst til athugasemda

Tillaga að friðlýsingu er nú lögð fram til kynningar til samræmis við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Afmörkun svæðisins miðast við hnitsett mörk og eru birt á korti.

Samhliða auglýsir Garðabær deiliskipulag fyrir útivistarsvæði í Urriðavatnsdölum. 

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til og með 11. maí 2023. Athugasemdum má skila hér að neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 

 

Áform um friðlýsingu auglýst

Áform um friðlýsingu voru auglýst  þann 2. október 2020, í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Frestur til að skila athugasemdum við áformin var til og með 4. desember 2020. Auglýsing um áformin var birt í Lögbirtingarblaðinu, Fréttablaðinu og á heimasíðum Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sem og á facebooksíðu Umhverfisstofnunar. Alls bárust athugasemdir frá 12 aðilum á kynningartíma áforma. Samstarfshópur um undirbúning friðlýsingarinnar vinnur að umsögn um innkomnar athugasemdir á kynningingartíma. Umsögnin verður send þeim sem gerðu athugasemdir á kynningartíma í samræmi við 3. mgr. 36. gr. náttúruverndarlaga.


Frekari upplýsingar veita Ingibjörg Marta Bjarnadóttir (ingibjorgb@ust.is) og René Biasone (rene@ust.is) eða í síma 591-2000.