Hrafnabjörg, Unaós-Heyskálar og Sandbrekka

Áform um friðlýsingu jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaós

Umhverfisstofnun, í samstarfi við landeigendur jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaós og sveitarfélagið Fljótsdalshérað, kynnir hér með áform um friðlýsingu fyrrgreindra jarða í samræmi við 48., 49. og 50. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Á svæðinu er afar fjölbreytt landslag þar sem fjöll, klettar og björg, víkur og tangar setja mikinn svip á landslagið. Víða má sjá berghlaup og grjótjökla, en frægast þeirra er Stórurð undir Dyrfjöllum. Að Stórurð liggur vinsæl gönguleið frá Vatnsskarði.

Svæðið er að hluta innan Úthéraðs þar sem fuglalíf er mjög fjölbreytt og meðal annars að finna tegundir sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum. Ennfremur eru á svæðinu merkar sögulegar minjar, m.a. gamall verslunarstaður og höfn við Krosshöfða og Stapavík.

Tillaga að mörkum friðlýst svæðis miðast við jarðamörk jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaós sem birt eru á korti.

Friðlýsingaráformin eru kynnt í samræmi við málsmeðferð 2. og 3. mgr. 36. gr.  náttúruverndarlaga, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna en gert er ráð fyrir að svæði sem er ekki á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, landeigenda og Fljótsdalshéraðs vinna drög að auglýsingu um friðlýsingu svæðisins sem lögð verður fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Tillagan mun verða auglýst opinberlega í þrjá mánuði og öllum gefinn kostur á að gera athugasemdir við framlagða tillögu.

Þau áform sem nú eru kynnt miða að því að varðveita sérkenni og einkenni landslags svæðisins, fagurfræðilegt og menningarlegt gildi þess. Jafnframt er markmiðið að vernda vistgerðir, fugla og búsvæði þeirra og einstakar náttúrumyndanir vegna fræðilegs gildis, fegurðar og sérkenna. Í auglýsingu um friðlýsingu svæðisins er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni, m.a. á umferðarrétti og framkvæmdir. Þá er jafnframt heimilt að kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem geta haft áhrif á verndargildi viðkomandi svæðis.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 18. september 2019. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Frekari upplýsingar veita Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@ust.is) og Arna Hjörleifsdóttir (arna.hjorleifsdottir@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.

Upplýsingar

Skrár