Fitjar

Fyrirhuguð friðlýsing votlendis Fitjaár í Skorradal

Áform um friðlýsingu votlendissvæðis Fitjaár í Skorradal

Umhverfisstofnun, ásamt landeigendum og sveitarfélaginu Skorradalshreppi, kynnir hér með áform um friðlýsingu votlendis og óshólma Fitjaár í Skorradal sem friðland í samræmi við 49. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. 

Flóðslétta Fitjaár sem bugðast um flatlendið myndar samfellt og víðlent votlendi. Umrætt svæði er að mestu innan við mörk svæðis 238 á náttúruminjaskrá en tillagan nær jafnframt yfir árósa Fitjaár. Fjölbreytt fuglalíf er við ós Fitjaár og gegnir votlendið á flóðsléttu Fitjaár fjölbreyttu hlutverki í vistkerfum. Lögð er áhersla á mikið verndargildi þess óspillta votlendissvæðis sem er við ósa Fitjaár. Starungsmýravist, sem er helsta votlendisvistgerð svæðisins, hefur mjög hátt verndargildi og er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Mýrastör og gulstör sem falla undir starungsmýravist mynda eitt víðaáttumesta mýragróðurfélagið á svæðinu en jafnframt er þar að finna fjölbreytt mýragróðursamfélög og vatnaplöntur. Jarðvegur votlendisins er lífrænn og hefur hátt kolefnisinnihald og mikla vatnsgeymd. 

Tillaga að friðlýsingarmörkum miðast við hnitsett mörk skv. hnitaskrá og eru birt á korti.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við málsmeðferð 2. og 3. mgr. 36. gr. náttúruverndarlaga, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Að kynningartíma liðnum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir við tillöguna. Í kjölfarið munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlinda-ráðuneytisins, landeigenda og Skorradalshrepps vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð friðlýsing mun að því búnu verða auglýst opinberlega í þrjá mánuði og öllum gefinn kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.
Friðlýsingin miðar að því að vernda víðlent, samfellt og lítið raskað votlendi á flóðsléttu Fitjaár, vernda tilteknar vistgerðir og búsvæði og styrkja verndun tegunda lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum og til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að kveða á um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að hlúa að og mæta þörfum tegunda sem verndin beinist að eða til að viðhalda búsvæðum eða vistgerðum. Takmarka má umferð um friðlönd á vissum tímum árs eða á tilteknum stöðum ef það er nauðsynlegt til að ná markmiði friðlýsingarinnar. Þá er einnig heimilt að ákveða að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.  

Frestur til að skila athugasemdum er til og með 3. janúar 2020 Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 
Frekari upplýsingar veita Eva B. Sólan Hannesdóttir (evasolan@umhverfisstofnun.is) og Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@umhverfisstofnun.is) eða í síma 591-2000.

Tengd skjöl:
Fitjar - kort
Fitjar - hnitaskrá