Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá í Garðabæ

Tillaga að friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ

Samstarfshópur, skipaður fulltrúum frá Garðabæ, Umhverfisstofnun, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Ríkiseignum, Minjastofnun Íslands og landeigendum hefur undanfarið unnið að undirbúningi friðlýsingar Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ á grundvelli náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Samkvæmt 39. gr. sömu laga annast Umhverfisstofnun undirbúning friðlýsingar. Skv. 2. mgr. fyrrnefndrar greinar skal Umhverfisstofnun gera drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir landeigendur og aðra rétthafa lands, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu skal vera þrír mánuðir og skal stofnunin í kjölfarið vísa málinu til ráðherra með tillögum að friðlýsingarskilmálum og gera grein fyrir því hvort að náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila.

Sú tillaga að friðlýsingarskilmálum sem Umhverfisstofnun kynnir nú byggir á því samtali sem hefur átt sér stað á vettvangi samstarfshóps.

Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum.

Er undirbúningur friðlýsingar svæðisins liður í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um átak í friðlýsingum.

Kynning á tillögu að friðlýsingu
Umhverfisstofnun leggur hér með fram tillögu að friðlýsingaskilmálum fyrir Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá í Garðabæ ásamt tillögu að mörkum svæðisins. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til og með 23. mars 2020. Athugasemdum má skila með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila sé óskað eftir í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.

Frekari upplýsingar veita Ingibjörg M. Bjarnadóttir (ingibjorgb@ust.is) og René Biasone (rene@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.

Tengd skjöl:
Drög að friðlýsingarskilmálum
Kort

 


 

 

Upplýsingar

Skrár