Umhverfistofnun - Logo

Skilgreiningar á hugtökum

Úrgangur

Hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við, ætla að losa sig við eða er gert að losa sig við. Allan úrgang ber að færa til endurnýtingar eða förgunar.

Lífrænn úrgangur 

Einungis lífbrjótanlegur (e. biodegradable) garðaúrgangur og matar– og eldhúsúrgangur. 

Hér er um að ræða breytingu frá eldri skilgreiningu sem tók til alls lífbrjótanlegs úrgangs. Breytingin hefur í för með sér að ýmsir lífbrjótanlegir úrgangsflokkar sem áður töldust til lífræns úrgangs gera það ekki lengur, t.d. sláturúrgangur, fiskúrgangur, húsdýraskítur, seyra, timbur, pappír og pappi.

Endurnýting

Úrgangur er nýttur með þeim hætti að aðalútkoman er sú að hann verður til gagns. Úrgangurinn er þannig notaður í stað efniviðar sem annars hefði verið notaður. Undir skilgreininguna fellur einnig meðhöndlun sem felur í sér að úrgangur er útbúinn til slíkrar notkunar, t.d. geymsla úrgangs áður en hann fer til endurnýtingar. Endurnýting skiptist í undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu. 

Hér er grundvallarbreyting frá eldri skilgreiningu að gert er að skilyrði að viðkomandi endurnýting þjóni sérstökum tilgangi, öðrum en að losna við úrgang. Með nýrri skilgreiningu eru því dregin skarpari skil á milli förgunar og lögmætrar endurnýtingar. 

Úrgangur sem fer í gegnum einhverja tegund endurnýtingar getur hætt að vera úrgangur og orðið aftur að efni eða hlut, sbr. reglugerð um lok úrgangsfasa og reglugerð um endurnýtingu úrgangs. Til að þetta gerist þarf úrgangurinn að fara í gegnum endurnýtingaraðgerð og uppfylla viðmið sem koma fram í viðeigandi reglugerð. Ekki er nóg að uppfylla skilyrðin sem koma fram í lögum um meðhöndlun úrgangs (21. gr.) Í reglugerð um lok úrgangsfasa koma fram sérstök viðmið um lok úrgangsfasa fyrir tilteknar gerðir brotajárns, glerbrot og koparrusl. Reglugerð um endurnýtingu úrgangs gildir um endurnýtingu úrgangs sem ekki eru til viðmið um lok úrgangsfasa fyrir. 

Undirbúningur fyrir endurnotkun

Vörur eða íhlutir fara í gegnum sérstaka meðhöndlun, sem felst í skoðun, hreinsun eða viðgerð, áður en þau eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð í upphafi. Vörur eða íhlutir sem falla hér undir teljast úrgangur. Undirbúningur fyrir endurnotkun telst til endurnýtingar. 

Að mati Umhverfisstofnunar tekur hugtakið til þeirra sem hafa atvinnu af að taka á móti úrgangi og undirbúa hann fyrir endurnotkun, en tekur ekki til stakra vara eða íhluta sem ganga beint frá einum einstaklingi til annars, jafnvel þótt eigendaskiptin kalli á skoðun, hreinsun eða viðgerð. Að mati stofnunarinnar fellur slíkt undir endurnotkun. 

Dæmi

 • Bilað raftæki sem fagaðili tekur við, bilanagreinir, gerir við og setur á markað.
 • Úr sér gengið ökutæki sem fagaðili tekur við, gerir upp og setur á markað. 
 • Íhlutir úr raftækjum og úr sér gengnum ökutækjum sem fagaðili tekur við, skoðar, hreinsar eða gerir við og setur á markað. 


Endurvinnsla 

Úrgangur er unninn í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi. Endurvinnsla telst til endurnýtingar. 

Vinnsla á orku eða eldsneyti úr úrgangi fellur ekki undir endurvinnslu, heldur undir endurnýtingu. Það sama gildir um notkun úrgangs til fyllingar, t.d. við landfyllingu í sjó eða við frágang gamallar námu. 

Dæmi 

 • Plastumbúðir eru bræddar upp og framleidd úr þeim vörubretti.
 • Molta er framleidd úr lífrænum úrgangi.  

Önnur endurnýting 

Önnur endurnýting en undirbúningur fyrir endurnotkun eða endurvinnsla. 

Dæmi 

 • Framleiðsla eldsneytis úr úrgangi. 
 • Óvirkur úrgangur er nýttur við að fylla upp í gamla grjótnámu og endurheimta upprunalegt landslag. Tryggt er að úrgangurinn kemur í stað efnis sem annars hefði verið notað til að fylla upp í námuna, þ.e. þörfin til landmótunar liggur til grundvallar en ekki þörfin til að losna við úrgang.
 • Seyra er nýtt til áburðar á jörð og tryggt er að notkun seyrunnar fylgi ávinningur fyrir landbúnað eða vistfræði viðkomandi svæðis. 
 • Brennsla úrgangs í brennslustöð þar sem orkunýtni er 60–65% eða hærri.

Förgun 

Ef úrgangur fer til meðhöndlunar sem fellur ekki undir að vera endurnýting þá telst það förgun, þ.e. aðalútkoman er ekki að úrgangur verði til gagns. Gildir þá einu þótt viðkomandi meðhöndlun hafi aukalega í för með sér endurheimt efna eða orku. 

Dæmi

 • Úrgangur er urðaður.
 • Brennsla úrgangs í brennslustöð þar sem orkunýtni er lægri en 60–65%. 
 • Lífrænn úrgangur er urðaður og hauggasi er safnað og það nýtt til eldsneytisframleiðslu.