Kolefnisjöfnun

Eins og fram hefur komið fylgir öllum okkar daglegu athöfnum losun gróðurhúsalofttegunda. Það verður að þykja afar ólíklegt er að við náum að draga svo mikið úr neyslu og öðrum athöfnum að við munum ekki hafa nein áhrif á umhverfið okkar. Þá er hins vegar hægt að líta til kolefnisjöfnunar en í tilfelli Íslands er þar um vannýtt tækifæri að ræða.

Kolefni bindst gróðri með þeim hætti að það nýtir CO2 til ljóstillífunar og umbreytir í lífræn efni, sem geymd eru í gróðri og jarðvegi. Skógrækt er því alþjóðlega viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Á Íslandi eru aðallega tveir aðilar sem bjóða upp á að fólk og fyrirtæki kolefnisjafni útblástur sinn, Kolviður og Skógræktin. Á vefsíðu Kolviðs er hægt að reikna út hversu mikið bílar og flugferðir einstaklinga og fyrirtækja eru að losa af CO2 og á móti, hversu mörg tré þarf til að binda losunina. Þannig getur fólk tekið enn frekari ábyrgð á losun sinni. Skógræktin hefur einnig verið að bjóða uppá að fyrirtæki geri samning um skógrækt en þar er fyrirkomulagið svipað að ræktað er fyrir jafnvirði útblásturs bíla eða flugferða.

Landgræðsla og endurheimt votlendis eru einnig mikilvægar mótvægisaðgerðir en best er að leita sér upplýsinga á vefsíðum Landgræðslunnar og Landbúnaðarháskóla Íslands eða hafa samband við þau varðandi slíkt.

Ekki á þó að líta á kolefnisbindingu sem einhvers konar „leyfi til að menga“ og mikilvægt að reyna að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarra mengunarefna samhliða því sem kolefnisbindingin er aukin. Þá eru einnig óbein umhverfisáhrif af samgöngum sem hafa áhrif á umhverfið þó það sé ekki okkar nánasta umhverfi, líkt og ofnýting auðlinda annarra ríkja, mengun í framleiðslulandi farartækja og svo framvegis. Slík áhrif er mikilvægt að hafa í huga og kynna sér eins og kostur er.