Meðhöndlaðar vörur

Það hefur færst í vöxt á undanförnum árum að framleiðendur á vörum láti bæta í þær efnum til þess að gefa þeim ákveðna eiginleika, svo sem til að lengja líftíma þeirra, koma í veg fyrir að af þeim stafi vond lykt, draga úr rotnun eða takmarka bakteríuvöxt. 

Ef fullyrt er að vara hafi verið meðhöndluð til þess að ná fram ofangreindum áhrifum má gera ráð fyrir að bætt hafi verið í hana efnum með sæfandi eiginleikum. Með sæfandi eiginleikum er átt við að efnið sem um ræðir drepi, fæli frá sér eða laði að sér lifandi skaðvalda eins og bakteríur, þörunga, sveppi eða meindýr. Í daglegu lífi notum við talsvert af vörum sem innihalda efni sem hafa þessa eiginleika til þess að vernda fólk, dýr, vatn, yfirborð, fatnað, vefnaðarvöru og fleiri vörur fyrir skaðvöldum. Við köllum þetta sæfivörur en sótthreinsiefni, skordýraeitur, nagdýraeitur og viðarvarnarefni eru dæmi um nokkra vöruflokka af slíkum vörum.
Það er líklegt að varan þín hafi verið meðhöndluð eins og lýst er hér að ofan ef þú sérð eftirfarandi hugtök koma fram á merkingum hennar:

  • bakteríudrepandi (antibacterial)
  • bakteríuhemjandi (bacteriostatic)
  • myglueyðandi (anti-mould)
  • mygluhemjandi (mould-repellent)
  • lyktarlaus (odourless)
  • vinnur gegn ólykt (anti-odour)

Hlutverk sæfandi efna, og þar með sæfivara, er að drepa lifandi verur, sem gerir það verkum að öll notkun þeirra er í eðli sínu varasöm og því ætti að draga úr henni eins og kostur er. Þar við bætist að óhófleg og röng notkun á sótthreinsandi efnum getur valdið því að til verði í umhverfi okkar ónæmar bakteríur með tilheyrandi vandamálum.
Fáðu upplýsingar í búðinni um það hvaða efni varan sem þú hyggst festa kaup á inniheldur, þannig að þú getir tekið upplýsta ákvörðun um að forðast vörur sem innihalda sæfandi efni. Efni í meðhöndluðum vörum geta valdið ofnæmi og verið bæði skaðleg heilsu fólks og umhverfinu. Sem neytandi ættir þú að vera meðvitaður um það og ætíð að íhuga hvort þú getur leyst vandamálið án þess að nota slíkar vörur.
Veldu vörur sem merktar eru með Svansmerkinu eða Evrópublóminu, þegar það er í boði, til þess að vera viss um að þær séu öruggar í notkun.