Um meðhöndlaðar vörur

Meðhöndlaðar vörur geta gert meiri skaða en gagn á heimilum

Í okkar daglega lífi notum við vörur sem innihalda eða eru meðhöndlaðar með efnum sem eru ætluð til þess að vinna á og berjast gegn örverum og fleiri skaðvöldum. Á undanförnum árum hefur fjöldi slíkra vara á markaði aukist jafnt og þétt. Sem dæmi má nefna íþróttaskó og sokka sem eru markaðssettir með fullyrðingu um að þeir lykti ekki af svita, eða þrifaklútar og sturtuhengi sem eru varin árás baktería og myglu.

Fyrir neytandann gæti virst ákjósanlegt að kaupa slíkar vörur til að vera laus við bakteríur, myglu og óæskilega lykt en ekki er allt sem sýnist. Þessar vörur geta valdið ofnæmi og verið skaðlegar heilsu fólks og umhverfinu en rannsóknir hafa sýnt að virku efnin í meðhöndluðum vörum losna úr þeim með tímanum og skolast út í umhverfið. Því er ærin ástæða fyrir neytendur að hugsa sig tvisvar um áður en hlutir eins og bakteríufrí skurðarbretti eru sett í innkaupakörfuna. Ekki nóg með það þá getur of mikil notkun þessara vara leitt til þess að bakteríur verði ónæmar fyrir virku efnunum í vörunum.

Einnig er umdeilanlegt hvort að virku efnin hafi í öllum tilvikum þau áhrif sem fullyrt er á vörunni. Markaðssetning meðhöndlaðra vara er ekki háð sérstöku leyfi frá yfirvöldum svo það er ekki víst að áhrif viðbættu efnanna hafi verið rannsökuð almennilega. Þess vegna er gott að hafa í huga að nota ekki meðhöndlaðar vörur á heimilinu nema að nauðsyn beri til. Í flestum tilvikum má forðast bakteríur og ólykt með því að þvo föt og sturtuhengi, þrífa eldhúsáhöld með sjóðandi vatni og sápu og halda heimilinu hreinu og snyrtilegu.

Vertu vakandi fyrir meðhöndluðum vörum

Ef fullyrt er í auglýsingu um vöru að hún búi yfir sæfandi áhrifum skal það vera merkt sérstaklega og virka efnið sem varan inniheldur koma fram í upplýsingum um hana. Jafnframt skulu fylgja notkunar- og öryggisleiðbeiningar. Þú þarft að hafa augun opin fyrir orðum eins og bakteríudrepandi („antibacterial“), myglueyðandi („anti-mould“), mygluhemjandi („mould-repellent“), þol gegn mjölsvepp („mildew-resistant“), bakteríuhemjandi („bacteriostatic“), lyktarlaus („odourless“) og vinnur gegn ólykt („anti-odour“).

Það er hugsanlegt að vörur hafi verið meðhöndlaðar án þess að það sé tekið sérstaklega fram. Ef þú ert í vafa skaltu hafa samband við söluaðila eða framleiðanda vörunnar.

Vörur sem hafa verið meðhöndlaðar með sæfivörum

Margar vörur, sem þú notar í daglegu lífi gætu hafa verið meðhöndlaðar með sæfivörum. Tilgangurinn er að verja vörurnar fyrir skemmdum af völdum t.d. skordýra og örvera. Þetta gæti átt við um húsgögn, vefnaðarvörur, fatnað o.fl.

Sæfivörur er hópur efnavara sem ætlaðar eru til þess að berjast gegn meindýrum, bakteríum og sveppum. Í sæfivörum eru eitt eða fleiri virk efni með sæfandi (lífeyðandi) eiginleika sem gera vörurnar áhrifaríkar gegn skaðvöldunum sem þeim er ætlað að berjast gegn. Dæmi um sæfivörur eru flugnafælur, viðarvarnarefni, nagdýraeitur, skordýraeitur og sótthreinsandi vörur.

Oft eru vörur meðhöndlaðar ef flytja á þær langar leiðir og þá er sjaldgæft að upplýsingar um það komi fram á vörunni. Þetta gæti átt við sófa, þar sem botninn hefur verið meðhöndlaður með viðarvarnarefni. Aðrar vörur eru meðhöndlaðar til þess að ná fram ákveðnum eiginleikum sem varan hefur umfram aðrar sambærilegar vörur. Þetta gæti átt við um nærfatnað sem hefur verið meðhöndlaður til að hindra bakteríuvöxt og þar með óæskilega líkamslykt. Hið sama gildir um þrifaklúta og svampa, skó, íþróttaföt og ýmsar aðrar meðhöndlaðar vörur sem eru markaðssettar með fullyrðingum eins og „lyktarlaust“, „kemur í veg fyrir vöxt örvera“,"bakteríudrepandi",  og "bakteríuheftandi".

Dæmi um meðhöndlaðar vörur með sótthreinsieiginleika:

  • Skurðarbretti
  • Þrifaklútar
  • Sturtuhengi
  • Dýnur og púðar
  • Skór
  • Ryksugupokar
  • Íþróttafatnaður
  • Nærföt
  • Kæliskápar og frystar