Umhverfistofnun - Logo

Plöntuverndarvörur

Plöntuverndarvörur eru notaðar í ræktun skrautplantna og matvæla, svo sem ávaxta, grænmetis og kornvöru, til þess að koma í veg fyrir eða draga úr skaða af völdum sveppa, illgresis, skordýra og annarra meindýra. Stýriefni teljast líka til plöntuverndarvara en þau eru meðal annars notuð til þess að örva rótarmyndun græðlinga og stýra vaxtarlagi plantna.


Aðeins er heimilt að setja plöntuverndarvöru á markað hérlendis ef hún hefur fengið leyfi hjá Umhverfisstofnun og stofnunin heldur úti skrá yfir vörur sem leyfðar eru til notkunar hverju sinni. Ítarlegar rannsóknir eru gerðar á því hvort efni í plöntuverndarvörum geta valdið okkur sjálfum eða umhverfinu skaða og áhætta af notkun þeirra er metin áður en leyft er að setja þær á markað. 

Plöntuverndarvörum er skipað í tvo flokka eftir því hversu hættulegar þær eru í meðhöndlun og notkun. Annars vegar er um að ræða vörur sem lítil hætta stafar af og þær því leyfðar til notkunar fyrir almenning og hins vegar vörur sem eru geta verið hættulegar í meðhöndlun og eru notendaleyfisskyldar. Sérstakt notendaleyfi, sem gefið er út af Umhverfisstofnun, þarf til þess kaupa og nota plöntuverndarvörur sem eru notendaleyfisskyldar og ætlaðar til notkunar í atvinnuskyni. Þá þurfa þeir sem stunda garðaúðun í atvinnuskyni að vera handhafar notendaleyfis fyrir plöntuverndarvörum.

Þegar kemur að því að velja plöntuverndarvöru til að bregðast við einhverjum vanda er vert að benda á þann valkost að nota vörur sem hafa sem minnst neikvæð áhrif á náttúruna. Á markaðnum eru vörur sem aðeins innihalda náttúruleg virk efni, svo sem pýretrín, sápur eða olíur sem brotna tiltölulega hratt niður í náttúrunni og valda því lágmarksskaða á umhverfinu.

Þegar plöntuverndarvöru er dreift eða úðað yfir matjurtir þarf að líða ákveðinn tími frá því að efnið er notað þangað til óhætt er að uppskera og neyta afurðanna. Þetta er gert til þess að efnin nái að brotna niður og ekki verði til staðar leifar af þeim í matnum sem við neytum. Ef við virðum uppskerufrestinn og fylgjum í hvívetna leiðbeiningum um notkun plöntuverndarvara á okkur ekki að vera nein hætta búin. 

Mikilvægt er að fylgja nákvæmlega leiðbeiningum um blöndun og meðferð plöntuverndarvara, ekki síst vegna gróðursins sjálfs. Sé notuð of sterk blanda eða úðað í mikilli sól getur það valdið því að blöðin á plöntunum sviðna og skemmast. Á hinn bóginn getur það gerst að úðun beri ekki tilætlaðan árangur gegn skaðvaldinum ef notuð er of dauf blanda eða úðað í rigningu. Stöndum vörð um umhverfið, notum plöntuverndarvörur á réttan hátt og aldrei að óþörfu.