REACH 2018

Á REACH 2018 við þig?

Síðasti skráningarfrestur REACH er 31. maí 2018, en hann nær til efna sem eru framleidd eða flutt inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins í magni sem nemur frá 1 upp í 100 tonn á ári. Að þessum fresti liðnum skulu öll skráningarskyld efni sem markaðssett eru í meira magni en sem nemur 1 tonni á ári vera skráð.

Á sérstökum vefhluta Efnastofnunar Evrópu um REACH 2018 má nálgast mikið af upplýsingum og leiðbeiningum um hvernig standa skuli að skráningu, meðal annars þegar svokölluð lítil og meðalstór fyrirtæki (e. Small and Medium sized Enterprises, SMEs) eiga í hlut. Á vefnum má einnig nálgast lista yfir kennsluefni (e. webinar), m.a. tengt skráningu, og upptökur af námskeiðum sem hafa verið haldin.

Ef þú flytur inn vörur frá löndum utan EES í magni sem nemur einu tonni á ári eða meira getur verið að þér beri skylda til að skrá efnin hjá Efnastofnun Evrópu. Ef þú framleiðir eða flytur inn vörur (efnablöndur, hluti) getur verið að þær innihaldi efni sem þarf að skrá.

Skráning efna hjá Efnastofnun Evrópu er yfirgripsmikið og kostnaðarsamt ferli. Fyrir lítil fyrirtæki getur verið ráðlegt að skoða vel hvort að það kunni að vera hagkvæmara að finna birgja sem getur boðið efni sem eru þegar skráð.

Ef þú forskráðir efni sem þú framleiðir eða flytur inn frá löndum utan EES í magni sem nemur 1 til 100 tonnum á ári og hefur ekki þegar lokið skráningunni hefur þú frest til 31. maí 2018 til að ljúka henni.

Hafi efni, sem framleidd eru innan EES eða flutt þangað frá löndum utan EES í magni sem nemur 1 tonni á ári eða meira, ekki verið skráð 31. maí 2018 verða þau ólögleg á markaði. Engin skráning = enginn markaður